Hariri fer til Frakklands

Veggspjald af forsætisráðherranum Saad Hariri á gatnamótum í Beirút, höfuðborg …
Veggspjald af forsætisráðherranum Saad Hariri á gatnamótum í Beirút, höfuðborg Líbanons. AFP

Líbanski forsætisráðherrann Saad Hariri var í dag að undirbúa för sína frá Sádi-Arabíu til Frakklands. Það ferðalag hefur flækt enn þá makalausu pólitísku fléttu sem virðist vera í gangi en Hariri kom fram í sjónvarpi í Sádi-Arabíu fyrir skömmu og tilkynnti um afsögn sína sem forsætisráðherra. Líbanir telja að Sádar séu með Hariri í gíslingu.

Í Frakklandi stendur til að Hariri eigi fund með Emmanuel Macron forseta í París á morgun. Ákvörðun um fundinn var tekin eftir að Hariri hitti utanríkisráðherra Frakklands í Riyadh í gær. Líbanon var áður frönsk nýlenda og því hafa Frakkar nú ákveðið að reyna að miðla málum í deilunni sem enn er þó ekki vitað hvernig til er komin. Talið er að staðan hafi skapast vegna vaxandi spennu milli Írana og Sáda. 

Hariri er bæði með líbanskan og sádiarabískan ríkisborgararétt. Þann 4. nóvember kom hann fram í sjónvarpi í Sádi-Arabíu og sagðist ætla að segja af sér sem forsætisráðherra þar sem hann óttaðist um líf sitt. Í sama ávarpi sakaði hann Írana og Hesbollah-flokkinn um að vinna að óstöðugleika í Líbanon. Meira að segja nánustu samstarfsmenn Hariri voru steinhissa á þessari yfirlýsingu sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hariri snéri ekki aftur heim til Líbanons í kjölfar hennar, eins og hann þarf að gera til að geta formlega sagt af sér, og var það álitið til marks um það að hann væri í raun í haldi Sáda.

Þessu neita stjórnvöld í Sádi-Arabíu og segja að Hariri sé frjáls ferða sinna. 

Skrifstofa Frakklandsforseta segir að fundur Hariris og Macrons muni fara fram um hádegisbil á morgun.

Michel Aoun, forseti Líbanons, hefur sakað Sáda um hafa Hariri í haldi og hefur neitað að taka við afsögn hans á meðan hann er ekki í heimalandi sínu. Aoun fagnar því að forsætisráðherrann sé nú á leið til Frakklands. 

 „Við vonum að krísunni sé lokið og að með því að þiggja boð um að fara til Frakklands sé kominn vísir að lausninni,“ sagði Aoun forseti í dag. „Ef Hariri flytur ávarp frá Frakklandi þá tel ég hann gera slíkt af fúsum og frjálsum vilja. En hann verður að tilkynna um afsögn sína í Líbanon og hann þarf að vera hér þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð,“ sagði Aoun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert