Pylsa í stað Jesúbarnsins

Þessi auglýsing fór ekki vel ofan í alla.
Þessi auglýsing fór ekki vel ofan í alla. Skjáskot/Twitter

Breskt bakarí telur nú niður til jóla með myndum sem vakið hafa úlfúð meðal sumra en kátínu hjá öðrum. Bakaríið heitið Greggs og er með verslanir á um 1.800 stöðum. Á einni mynd dagatalsins, sem einnig gildir sem afsláttarmiði, má sjá vitringana þrjá sitja umhverfis jötu en í henni liggur ekki litla Jesúbarnið heldur pylsa í brauði.

Einhverjir urðu sármóðgaðir og hafa hvatt til þess á samfélagsmiðlum að bakaríið verði sniðgengið fyrir guðlast. „Móðgaður, já. Sem kristinn maður þá hafa þeir breytt frelsara mínum í pylsu,“ segir einn um myndina á Twitter. Aðrir segja þetta bráðfyndið og að smá húmor sé nauðsynlegur um jólin.

Samband kirkna í Bretlandi segist þó ekki „mjög hneykslað“ í samtali við BBC. Talsmaður þess sagðist þó hugsi yfir því að jólahátíðin væri notuð til markaðssetningar með þessum hætti.

Greggs-bakarí hafa beðist afsökunar á myndinni. 

Frétt Huffington Post um málið.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert