„Skepnan“ öll

Salvatore Toto Riina árið 1993.
Salvatore Toto Riina árið 1993. AFP

Hinn alræmdi mafíósi Salvatore „Toto“ Riina er látinn, 87 ára að aldri. Talið er að hann hafi haft um 150 mannslíf á samviskunni. Riina fór lengi fyrir mafíunni á Sikiley og hafði hlotið 26 lífstíðardóma. Hann fékk krabbamein og lést á fangadeild sjúkrahúss í Parma í nótt.

Riina hafði viðurnefnið „skepnan“. Hann stjórnaði með harðri hendi í áratugi eftir að hafa náð skipulagðri glæpastarfsemi Sikileyjar á sitt vald á áttunda áratugnum.

Riina er talinn hafa fyrirskipað um 150 morð. Meðal þeirra voru morð á tveimur dómurum, Giovanni Falcone og Paolo Borsellino, sem höfðu reynt að uppræta mafíuna með því að draga um 300 meðlimi hennar fyrir dóm árið 1987.

Áður hafði lítið farið opinberlega fyrir mafíunni en með blóðþorsta sínum segja sérfræðingar að Riina hafi beint kastljósinu að illvirkjum hennar. Morðin sem hann fyrirskipaði voru framin um alla Ítalíu. 

Eitt umtalaðasta morðið sem Riina fyrirskipaði var á þrettán ára gömlum dreng sem var rænt til að stöðva föður hans í því að segja frá leyndarmálum mafíunnar. Drengurinn var kyrktur og lík hans svo leyst upp í sýru.

Í vikunni fékk fjölskyldan að kveðja Riina á sjúkrahúsinu en slíkar heimsóknir hafa í gegnum tíðina verið fágætar. „Þú ert ekki Toto Riina í mínum huga, þú ert bara pabbi minn. Og ég óska þér til hamingju með afmælið á þessum sorgardegi. Ég elska þig,“ skrifaði einn sonur hans á Facebook.

Riina hafði beðið um að verða leystur úr haldi í júlí vegna sjúkdóms síns. Á það var ekki fallist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert