Bann við fílabeinsinnflutningi enn í gildi

Afríkufíllinn er flokkaður sem viðkvæm tegund á válista Alþjóðanáttúruverndarsambandsins.
Afríkufíllinn er flokkaður sem viðkvæm tegund á válista Alþjóðanáttúruverndarsambandsins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hnekkt ákvörðun Veiðimálastofnunar Bandaríkjanna um að leyfa innflutning á fílabeinum. BBC greinir frá. 

Bannið var sett árið 2014, í forsetatíð Barack Obama.

Stofnunin tilkynnti á fimmtudag að veiðimenn mættu flytja inn fílabein á ný, svo lengi sem það væri frá Simbabve og Sambíu og öruggt væri að fílarnir hefðu verið veiddir með löglegum hætti.

Forsetinn vill kynna sér betur stöðu mála og greindi frá ákvörðun sinni á Twitter. Hann vill setja ákvörðun um veiðiminjagripi á ís á meðan hann fer yfir staðreyndir um ástand stofnana. Þá muni hann fara yfir málið með Zinke innanríkisráðherra.

Þegar fregnir af afnámi bannsins bárust brugðust dýraverndunarsinnar fljótt við. Þeirra á meðal er franska leikkonan Brigitte Bardot sem sendi forsetanum bréf. „Svívirðilegar aðgerðir þínar staðfesta orðróminn um að þú ert ekki hæfur í þínu starfi,“ stóð meðal annars í bréfinu til Trumps.

Þá hefur mynd sem sýnir son forsetans, Donald Trump Jr, haldandi á hala fíls verið dreift um samfélagsmiðla. Myndin er tekin á veiðiferðalagi feðganna í Afríku.

Ákvörðun Veiðimálastofnunarinnar hefur verið harðlega gagnrýnd af Alþjóðanáttúruverndarsambandinu. Afríkufíllinn er flokkaður sem viðkvæm tegund á válista sambandsins og vísbendingar eru um að stofninn hafi minnkað um allt að 30% á árunum 2007-2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert