Greina frá kynferðisbrotum í pólitík

Sænska þinghúsið. 1.300 konur sem starfa í sænskum stjórnmálum sendu …
Sænska þinghúsið. 1.300 konur sem starfa í sænskum stjórnmálum sendu í dag frá sér fordæmingu á kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi. Holger.Ellgaard /Wikipedia

1.300 konur sem starfa í sænskum stjórnmálum sendu í dag frá sér fordæmingu á kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi. Í frétt á vef sænska ríkissjónvarpsins SVT segir að frá því að tvær stjórnmálakonur hafi stofnað í sameiningu Facebook-hóp um kynferðisofbeldi í sænskum stjórnmálum og að á þeim tveimur dögum sem liðnir eru frá því að hópurinn var stofnaðu hafi borist frásagnir af rúmlega 250 kynferðisbrotum.

Meðal þeirra sem ljá málinu nafn sitt eru þingkonurnar Birgitta Ohlsson og Rosanna Dinamarca.

Undanfarna vikur hafa þúsundir kvenna í ólíkum starfsstéttum greint frá kynferðisofbeldi sem þær hafi orðið fyrir í atvinnulífinu, bæði leikkonur, söngkonur og lögfræðingar hafa greint frá slíkum atvikum.

„Nú er röðin komin að því að beina kastljósinu að þeim sem setja lögin,“ segir í áskoruninni.

Meðal gerenda er að finna þingmenn og ráðherra og eru brotin allt frá því að vera óviðeigandi athugasemdir og yfir í snertingar og nauðganir.

Segir í frétt SVT að áberandi margar frásagnanna greini frá því er eldri stjórnmálamenn brjóta gegn ungum stjórnmálakonum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert