Teikning af Tinna seldist á 51 milljón

Tinni er ein þekktasta teiknimyndapersóna sem sköpuð hefur verið.
Tinni er ein þekktasta teiknimyndapersóna sem sköpuð hefur verið. Ljósmynd/Wikipedia.org

Fágæt blekteikning af blaðamanninum og spæjaranum Tinna og hundinum hans, Tobba, var seld á 500 þúsund dollara, eða rúmlega 51 milljón króna, á uppboði í París í dag.

Myndin, sem er frá árinu 1939, er úr bókinni King Ottokar‘s Sceptre eða Veldissprota Ottókars konungs, eins og titillinn var þýddur á íslensku, en fleiri munir frá skapara Tinna, belgíska listamanninum Hergé, fóru á háu verði á sama uppboði. BBC greinir frá.

Blaðsíðurifa úr bókinni The Shooting Star (ísl. Dularfulla stjarnan) seldist á 350 þúsund dollara eða rúmar 36 milljónir íslenskra króna, en afrit af teikningu úr bókinni Destination Moon (ísl. Eldflaugastöðin), árituð af bandarískum geimförum seldist hins vegar ekki.

Þrátt fyrir að um háar upphæðir sé að ræða í þessum tilfellum hafa upprunalegar teikningar og afrifur úr bókunum selst á enn hærra verði. Á síðasta ári seldist til dæmis blaðsíða úr bókinni Explores on the Moon (ísl. Í myrkum mánafjöllum) á 1,64 milljónir dollara á uppboði í París, eða á tæpar 169 milljónir króna. Á síðasta ári seldist einnig fágæt teikning úr bókinni The Blue Lotus (ísl. Blái Lótusinn), á 1,2 milljónir dollara í Hong Kong, eða rúmar 123 milljónir króna.

Tinni er líklega ein þekktasta teiknimyndapersóna sem sköpuð hefur verið, en bækurnar um hann hafa verið þýddar á 90 tungumál og hafa selst í yfir 200 milljónum eintaka. Teiknimyndasögurnar njóta enn vinsælda í dag, þrátt fyrir að vera komnar til ára sinna, og ekki er langt síðan síðast var gerð bíómynd um ævintýra Tinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert