Heróínframleiðsla í Afganistan í blóma

Afganskir bændur taka hér upp valmúauppskeruna. Valmúinn er notaður til …
Afganskir bændur taka hér upp valmúauppskeruna. Valmúinn er notaður til framleiðslu á heróíni og ópíumi og hefr framleiðslan ekki verið í jafn miklum blóma lengi. AFP

Ópíumframleiðsla í Afganistan hefur aukist um 87% á síðasta ári og yfirgefin herstöð í Helmand-héraði er nú meðferðarstöð fyrir eiturlyfjafíkla.

Tíu árin þar á undan voru breskar hersveitir að störfum í stöðinni, önnum kafnar við að dreifa hjálpargögnum og reyna að styrkja innviði héraðsins.

Nú er herstöðin eyðileg á að líta, allt sem einhvers virði var hefur verið fjarlægt. Stöku stuna berst nú eftir göngum þar sem horaðir karlar sofa og leita skjóls fyrir sólinni. Allir eru þeir eiturlyfjafíklar í bataferli eftir dvöl í meðferðarstöðinni.

Í einu herbergjanna dettur eldri maður úr rúmi sínu. „Allah, Alla,“ muldrar hann og veifar höndum og fótum líkt og hann sé að búa til snjóengla í rykugt gólfið. Hann er í fráhvörfum á sínum öðrum degi án heróínsins.  

„Okkur leið öllum svona þegar við komum,“ hefur Guardian eftir herbergisfélaga hans Khairullah.



Skilur eftir sig slóð fíknar heimafyrir

Hvergi í heiminum er meira framleitt af ópíum og heróíni en í Afganistan. Ópíumframleiðslan í ár hefur slegið nýtt met og jókst um 87% frá árinu á undan, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna.

Aukninguna má að hluta reka til þess að stærri svæði eru nú nýtt undir valmúaræktun en áður og er þetta ein afleiðing landvinninga talibana, sem bæði hvetja til ræktunarinnar og græða á uppskerunni.

Framleiðslan skilur hins vegar eftir sig slóð fíknar, jafnvel þó að miklum meirihluta fíkniefnanna sé smyglað úr landi. Er það mat Sameinuðu þjóðanna að á bilinu 1,3-1,6 milljónir fíkniefnaneytenda séu í Afganistan.

Heróín. Þá valmúaræktun njóti stuðnings talibana er notkun heróíns ekki …
Heróín. Þá valmúaræktun njóti stuðnings talibana er notkun heróíns ekki liðin á þeirra svæðum. Það stöðvar þó ekki fíklana. AFP

Lítið um meðferðarúrræði

Lítið er hins vegar við meðferð við fíkninni og í Helmand-héraði, þar sem helmingur af allri valmúarækt landsins fer fram og þar sem fátækt og atvinnuleysi er mikið, getur fíknin verið freistandi. Ekki standa hins vegar til boða nema 70 pláss í tveimur meðferðarstöðvum í öllu héraðinu.

„Þetta er varanlegur sjúkdómur, rétt eins og krabbamein,“ segir Ajmal Fazli læknir og forstöðumaður miðstöðvarinnar sem Guardian heimsótti og sem getur tekið við 20 manns í einu.

Meðferðin sem boðið er upp á er að hætta fíkniefnanotkuninni án nokkurra hjálparmeðala og halda út í 40 daga lyfjalaust. Andlegan stuðning veita hins vegar aðrir fíklar í meðferðarstöðinni. Eina skemmtanin sem boðið er upp á er í formi lítils sjónvarps sem stillt er upp framan við tvo plaststóla.

Sjúklingarnir hér eru karlmenn sem eru á jaðri samfélagsins. Unglingar sem hafa hætt skóla, gamlir lifaðir menn og svo ungur maður, sem fjölskyldan hafði komið í meðferðarstöðina  eftir að hafa skipulagt hjónaband fyrir hann. Því hefur nú verið frestað í sex ár eða þar til hann er orðinn laus við fíknina.

Lét handtaka mig til að losa mig við fíknina

Sumir sjúklinganna eru skreyttir heimagerðu húðflúri sem er til merkis um fangelsisvist, en lítið er annars um húðflúr í íslamskri menningu.

„Bróðir minn lét einu sinni handtaka mig til að hjálpa mér að losna við fíknina,“ segir Juma Khan og brettir upp ermina til að sýna húðflúr með snák og hjarta. Fangelsisvistin dugði hins vegar ekki til að sigrast á tíu ára fíkn.

Engar meðferðarstöðvar fyrir konur eru í Helmand, jafnvel þó að kvenfíklum fari nú einnig fjölgandi. Teymi kvenna sem vinna með fíklum utan meðferðarstöðva leita þó konurnar uppi meðal fíkla í görðum borgarinnar Lashkar Gah.

„Við erum hræddar við að fara þangað. Við klæðum okkur í föt lækna og segjum þeim að við séum komnar þangað til að ræða um bólusetningar barna þeirra. Síðan setjumst við niður með þeim og spyrjum út í eiturlyfjafíkn þeirra,“ segir Latifa sem er félagsráðgjafi. Teymi hennar sér um að útdeila verkjalyfjum og hafa umsjón með fíklum sem reyna að losna við fíknina heima á 40 dögum.

Heilbrigðisráðuneytið hefur hins vegar nýlega sagt heilsugæslustöðinni sem Latifa vinnur fyrir að fækka konunum sem þær reyna að ná til um helming vegna takmarkaðra aðfanga.

Afganskir bændur við valmúaræktun í Nangarhar héraði. 2001, síðasta árið …
Afganskir bændur við valmúaræktun í Nangarhar héraði. 2001, síðasta árið sem talibanar fóru með stjórn Afganistan, var bann lagt við ræktun valmúa. Talibanar hafa hins vegar nú skipt um stefnu og fá hluta gróðans af þessum ólöglega iðnaði AFP

Allar tilraunir til að draga úr valmúaræktun mistekist

Guardian ræddi við nokkra fíkla í nágrenni meðferðarstöðvanna í Lashkar Gah. Einn þeirra, Hamid Kabiri, var eitt sinn í sérsveitum lögreglunnar, en dvelur nú löngum stundum í garðinum og reykir heróín. Kona hans hefur nú flutt inn til föður hans.

Þrátt fyrir að bandarísk stjórnvöld hafi frá árinu 2001 eytt 8,6 milljörðum dollara í að berjast gegn ópíumiðnaðinum í Afganistan heldur eiturlyfjabransinn áfram að stækka. Á síðasta ári tvöfaldaðist verðmæti þeirra ópíóða sem framleiddir voru í Afganistan er verðmæti framleiðslunnar óx úr 1,56 milljörðum dollara árið 2015 og upp í 3,02 milljarða dollara í fyrra. Helmand-hérað er aðalframleiðslusvæðið.

Svo gott sem allar tilraunir erlendra ríkja til að fá afganska bændur til að rækta eitthvað annað en valmúa hafa mistekist. Fíkniefnarassíur hafa reynst álíka gagnslitlar. Á sl. áratug hafa yfirvöld lagt hald á um 450.000 kg af ópíumi. Það er innan við 10% af þeim 4,8 milljónum kg af ópíumi sem voru framleidd í Afganistan í fyrra samkvæmt Sameinuðu þjóðunum.

2001, síðasta árið sem talibanar fóru með stjórn Afganistan, var bann lagt við ræktun valmúa. Talibanar hafa hins vegar nú skipt um stefnu og fá hluta gróðans af þessum ólöglega iðnaði, m.a. vegna landvinninga sinna sem hafa gert þeim kleift að hvetja til ræktunarinnar og skattleggja hana.

Valmúi á akri í Kandahar í Afganistan. Í ár hefur …
Valmúi á akri í Kandahar í Afganistan. Í ár hefur framleiðsla á ópíóðum í Afganistan aukist um 87% frá því í fyrra. AFP

Meira ræktað á svæðum talibana

„Í heildina er munstrið þannig að meira er ræktað á þeim svæðum sem eru undir stjórn talibana,“ segir Devashish Dhar, sem starfar hjá UNODC, eiturlyfja og glæpastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Afganskir bændur eru jafnvel farnir að teygja sig inni eyðimörkina með valmúaræktun sína og koma upp brunnum þar í því skyni og leggja til hliðar aðra og ábataminni ræktun.

David Mansfield, sérfræðingur við London School of Economics, segir gervihnattamyndir sýna að valmúaræktun sé nú hafin á ný á svæðum í nágrenni Lashkar Gah eftir að hafa legið niðri árum saman.

„Nýlegt fall sveitarstjórna í sumum þessum héruðum hefur gert fólki kleift að snúa sér aftur að valmúanum,“ segir hann. Ný tækni á borð við sólarrafhlöður feli þá í sér að hægt sé að draga úr kostnaði við vatnsdælur og rafala fyrir áveitugerð.

Heróín. Er það mat Sameinuðu þjóðanna að á bilinu 1,3-1,6 …
Heróín. Er það mat Sameinuðu þjóðanna að á bilinu 1,3-1,6 milljón fíkniefnaneytendur í Afganistan. Wikipedia

Rækta valmúa til að storka stjórnvöldum

Áhugi talibana á valbúaræktun nýtur stuðnings bænda á svæðinu og er hún oft einnig í því skyni að storka stjórnvöldum, að sögn Mansfield.

Notkun heróíns er hins vegar ekki liðin á svæðum talibana og fíklar eru fangelsaðir. Þegar talibanar gripu Abdul Shakur með fíkniefni í bíl sínum í Babaji fangelsuðu þeir hann og börðu með reyrprikum í tvo mánuði áður en hann slapp.

Það var þó ekki varðhaldið sem dugði til að lækna hann af fíkninni, því hann náði að smygla ópíumi þangað inn. Er hann gat hins vegar ekki náð í meira ópíum flúði hann og snéri aftur til fjölskyldu sinnar, þar sem hann samþykkti að fara í meðferð. „Þessu verður að ljúka,“ segir hann. „Ég vil verða heilbrigður maður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert