Nafnalisti Weinsteins átti að koma í veg fyrir ásakanir

Fjöldi kvenna hefur stigið fram og ásakað Harvey Weinstein um …
Fjöldi kvenna hefur stigið fram og ásakað Harvey Weinstein um nauðgun. AFP

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein, sem hefur verið ásakaður um að nauðga og áreita fjölda kvenna í kvikmyndabransanum, réð til sín njósnara sem höfðu það markmið að koma í veg fyrir að ósæmileg hegðun hans yrði gerð opinber.

Fréttastofa Guardian hefur undir höndum lista með 91 nafni fólks í bransanum, þar á meðal leikkvenna og leikara, framleiðenda, útgefenda og fjármagnara. Listann afhenti hann starfsliðinu, sem hafði það hlutverk að herja á þetta fólk til að komast að því hvað það vissi um ósæmilega kynferðislega hegðun Weinsteins og hvort það hefði í hyggju að gera þá vitneskju opinbera.

Listinn, sem settur var saman snemma árs 2017, staðfestir að Harvey hafi vitað af því að New York Times var komið á slóð hans, en 5. október síðastliðinn birti miðillinn röð ásakana um kynferðislegt ofbeldi á hendur Weinstein. Í kjölfarið hefur fjöldi kvenna stigið fram og sagt frá ofbeldinu.

Stærð listans gefur góða vísbendingu um það að hegðun Weinsteins hafi í raun verið á allra vitorði, eða nánast eins og opinbert leyndarmál í kvikmyndaheiminum. Sum nöfn listans voru rituð rauðum stöfum, en líklegt þykir að það séu nöfnin sem áttu að hafa forgang í „rannsókn“ Weinsteins. Meðal nafna á listanum eru nöfn kvenna sem nú hafa komið fram opinberlega og lýst ásökunum á hendur Weinstein. Nöfn þeirra eru mörg hver rituð rauðum stöfum.

Weinstein hefur vísað öllum ásökunum um nauðganir á bug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert