Seldu sama grafreitinn tvisvar

Mistökin komu í ljós þegar Phillips heimsótti gröf foreldra sinna …
Mistökin komu í ljós þegar Phillips heimsótti gröf foreldra sinna og sá nýlegan trékross þar við hliðina á. AFP

Sandra Cleaver lést árið 2015, þegar hún var 72 ára. Eftir andlátið var hún brennd og jarðneskum leifum hennar komið fyrir í gröf í Welton Road-kirkjugarðinum í Dantry á Englandi, sem dóttir hennar, Sonia Ducker, greiddi fyrir. Nú þarf hins vegar að grafa líkamsleifarnar upp og færa þær, því grafreiturinn sem hún hvílir í var tvíseldur af umsjónarmönnum kirkjugarðsins. The Telegraph greinir frá.

Gröfin sem Cleaver hvílir í var upphaflega seld Jennifer Phillips árið 1987, sem vildi tryggja að hún og maðurinn hennar gætu fengið hinstu hvílu við hlið foreldra hennar, sem hvíla í gröfinni við hliðina.

Mistökin komu í ljós þegar Phillips heimsótti gröf foreldra sinna nýlega og sá að trékrossi hafði verið komið fyrir þar sem hún sjálf hafði ætlað sér að hvíla.

Kirkjudómsdóll hefur nú úrskurðað að líkamsleifar Cleaver verði grafnar upp því talið er að það hafi skaðleg áhrif á Phillips að þurfa að heimsækja gröf foreldra sinna og sjá að önnur manneskja hvíli þar sem hún sjálf átti að hvíla. Þá er í úrskurðinum sagt að með því að færa líkamsleifarnar verði fjölskyldunum báðum forðað frá frekari óþægindum, þar sem ættingjarnir gætu átt það á hættu að heimsækja grafirnar á sama tíma, sem gæti skapað óþarfa streitu og kvíða.

Phillips greindi reyndar frá því í vitnisburði sínum fyrir dómnum að það hefði gerst tvisvar nú þegar. Önnur fjölskyldan hefði hins vegar beðið á meðan hin var við gröfina.

Kirkjugarðinum var gert að greiða allan kostnað ættingjanna vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert