Staðfest að ástin á sér engin landamæri

AFP

Til staðfestingar því að ástin á sér engin landamæri gengu mexíkósk kona og bandarískur karlmaður í hjónaband í gær við landamærahlið sem skilur lönd þeirra að. AFP-fréttastofan greinir frá.

Landamæraverðir opnuðu hliðið við Playas de Tijuana í um klukkutíma í gær en það er þekkt undir nafninu Dyr vonar eða Door of Hope. Með því gátu ættingjar beggja vegna landamæranna hist og fagnað með nýgiftu hjónunum í skamma stund.

Brúðurin, Evelia Reyes, var íklædd hvítum brúðarkjól og bar hvítt slör. Hún mætti til athafnarinnar ásamt þremur börnum af fyrra hjónabandi. „Í okkar sambandi er þessi veggur ekki til, ástin á sér engin landamæri,“ sagði Reyes við athöfnina. Brúðguminn, Brian Houston, klæddist hins vegar gráum jakkafötum. Dómari gaf þau saman í stuttri athöfn við hliðið undir ströngu eftirliti landamæravarða.

Hjónin nýttu þennan stutta tíma sem þau áttu saman.
Hjónin nýttu þennan stutta tíma sem þau áttu saman. AFP

Reyes fæddist í Guerrero í Mexíkó, en hún kynntist eiginmanni sínum í Tijuana fyrir þremur árum. Hún hefur hins vegar ekki getað ferðast til Bandaríkjanna vegna skorts á tilskildum leyfum og hefur eiginmaðurinn ekki getað ferðast til Mexíkó, af ástæðum sem ekki eru gefnar upp. Nú þegar þau hafa gengið í hjónaband mun Reyes þó væntanlega geta ferðast til Bandaríkjanna og notið samvista við eiginmanninn.

Stærstur hluti landamæranna á milli Bandaríkjanna og Mexíkó er settur einhvers konar hindrunum, en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lofað að byggja vegg á mörkum landanna tveggja til að hindra enn frekar flæði fólks frá Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert