Evran lækkar í kjölfar viðræðuslita

Evran hefur lækkað talsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum og hlutabréfavísitalan í Þýskalandi hefur einnig lækkað í morgun í kjölfar þess að viðræður um myndun ríkisstjórnar runnu út í sandinn í Þýskalandi í gærkvöldi.

Lækkun DAX-vísitölunnar er hins vegar ekki umtalsverð enda var farið að búast við viðræðuslitum strax fyrir helgi. 

Það voru Frjálsir demókratar (FDP) sem slitu viðræðunum skömmu fyrir miðnætti að staðartíma. Meðal þess sem ekki náðist samstaða um var stefna stjórnvalda í orkumálum og móttaka flóttafólks. 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur undanfarnar vikur reynt að mynda ríkisstjórn með FDP og Græningjum auk eigin flokks, Kristilegum demókrötum (CDU) og systurflokki hans í Bæjaralandi (CSU). Kosið var í Þýskalandi undir lok september. Merkel segir að reynt hafi verið að koma til móts við FDP án árangurs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert