Frakkar fyrstir til að rétta hjálparhönd

Frakkar eru fyrsta ríkið sem hefur boðist til þess að taka á móti afrískum flóttamönnum sem var bjargað úr flóttamannabúðum í Líbýu fyrr í mánuðinum af starfsmönnum flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Greint var frá þessu í morgun en UNHCR bjargaði fólkinu úr búðunum 11. nóvember og fór með það til Níger.

Um er að ræða 25 Erítrea, Eþíópíubúa og Súdana. 15 konur, fjögur börn og sex karlar. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti Frakklands er gert ráð fyrir að fólkið verði komið til Frakklands í síðasta lagi í janúar. 

Líbýa hefur lengi verið áfangastaður margra flóttamanna sem eru að reyna að komast sjóleiðina til Evrópu. Margir þeirra hafa orðið fórnarlömb skelfilegrar misnotkunar og ofbeldis í höndum smyglara og annarra.

Sjónvarpsstöðin CNN sýndi í síðustu viku myndir frá uppboði þar sem svartir karlar voru seldir hæstbjóðanda í Líbýu. Eru það einkum bændur sem kaupa þræla á slíkum uppboðum og kostar hver þræll oft ekki nema 400 Bandaríkjadali, rúmar 40 þúsund krónur.

Stefna og aðstoð Evrópusambandsins við yfirvöld í Líbýu sem miðar að því að koma í veg fyrir að fólk geti flúið yfir Miðjarðarhaf er ómannleg, segir yfirmaður UNHCR, Zeid Ra'ad Al Hussein.

Pascal Brice, framkvæmdastjóri OFPRA (frönsk stofnun sem fer með vernd flóttafólks og ríkisfangslausra) segir í samtali við AFP-fréttastofuna að Frakkar muni taka a móti flóttafólkinu.

Brice var að koma frá höfuðborg Níger, Niamey, þar sem hann kynnti sér aðstæður flóttafólks. Hann segir að fólkið fái stöðu flóttafólks strax við komuna til Frakklands. Veita verði fólkinu aðstoð því það þurfi á vernd að halda. 

Það er ekkert brýnna en að koma þessu fólki til bjargar. Fólki sem hefur gengið í gegnum helvíti á jörðu, pyntingar, nauðganir og stuld á börnum,“ segir Brice. Hann segir að fólkið sé nánast allt fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis.

Vonir standa til þess að önnur ríki í Evrópu, Bandaríkin, Kanada og fleiri ríki taki þátt og bjóði flóttafólkið velkomið. Auk flóttamannanna 25 verður einnig tekið á móti 47 flóttamönnum í viðbót sem eru í Níger.

 Frétt CNN

Þrælahaldi í Líbýu mótmælt í París.
Þrælahaldi í Líbýu mótmælt í París. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert