„Hefði átt að gerast fyrir löngu“

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir fyrr í dag að Norður-Kórea væri komin á lista Bandaríkjanna yfir þau ríki sem talin eru styðja hryðjuverk. 

„Þetta hefði átt að gerast fyrir löngu, fyrir löngu,“ sagði Trump þegar hann tilkynnti ákvörðunina í Hvíta húsinu í dag. Ákvörðunin hefur það í för með sér að Bandaríkin geta beitt frekari refsiaðgerðum gegn Norður-Kóreu.

Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar beita Norður-Kóreu nú þegar fjölda refsiaðgerða en ekki er talið að yfirlýsing Trumps í dag muni hafi mikil efnahagsleg áhrif í Norður-Kóreu. Ákvörðun dagsins í dag er því frekar talin táknræn.

Bandarískir embættismenn telja að ákvörðun Trump sé til þess gerð að auka pressuna á Norður-Kóreu. Talsverð spenna hefur ríkt á milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna vegna kjarnavopnatilrauna þeirra fyrrnefndu. Auk þess hafa leiðtogar ríkjanna, Trump og Kim Jong-un, skipst á miður fallegum skilaboðum síðustu misserin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert