13 milljónir Sýrlendinga þurfa hjálp

Sært barn liggur á sjúkrarúmi í bænum Kafr Batna í …
Sært barn liggur á sjúkrarúmi í bænum Kafr Batna í útjaðri Damaskus eftir átök í nágrenninu. AFP

Yfir þrettán milljónir Sýrlendinga þurfa á neyðaraðstoð að halda þrátt fyrir að dregið hafi úr stríðsátökum í landinu undanfarna mánuði, að sögn Sameinuðu þjóðanna.

Hátt í 330 þúsund manns hafa verið drepin síðan styrjöldin í Sýrland hófst í mars árið 2011 með mótmælum stjórnarandstæðinga. Síðan þá hefur um helmingur þjóðarinnar þurft að yfirgefa heimili sín og farið annaðhvort á annan stað í landinu eða til annars lands.

„Um 13,1 milljón manns í Sýrlandi þarf á mannúðaraðstoð að halda. Þar af þurfa 5,6 milljónir að fá hjálp án tafar,“ sagði í skýrslu skrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum.

Fjöldinn er aðeins lægri en í fyrra þegar 13,5 milljónir manna þurftu á neyðaraðstoð að halda. Að sögn Sameinuðu þjóðanna eru börn um 40% þeirra sem þurfa á hjálp að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert