Hið minnsta 32 látnir eftir sjálfsmorðsárás

Frá Tuz Khurmatu. Átök hafa verið á milli hersveita Kúrda …
Frá Tuz Khurmatu. Átök hafa verið á milli hersveita Kúrda og íraska stjórnarhersins á svæðinu á undanförnum mánuðum. AFP

Að minnsta kosti 32 eru látnir og tugir til viðbótar særðir eftir að ökumaður vörubíls sprengdi trukkinn og sjálfan sig í loft upp við fjölsóttan markað í bænum Tuz Khurmatu í norðurhluta Írak fyrr í dag.

Talsmaður innanríkisráðuneytis Íraks staðfesti við fréttastofu Reuters að árásin hefði átt sér stað við ávaxtamarkað í bænum.

Samkvæmt þeim voru flestir hinna látnu almennir borgarar. Búist er við að fleiri láti lífið í kjölfar árásarinnar, þar sem margir hinna slösuðu eru í tvísýnu ástandi. Fyrstu fregnir sögðu að fjöldi látinna væri 20, en AP fréttastofan hefur það eftir íröskum embættismönnum að 32 hið minnsta séu látnir.

Enginn hópur hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni, en íraskir embættismenn hafa áður sagt að nú þegar hryðjuverkasamtökin ISIS eigi undir högg að sækja bæði í Sýrlandi og Írak, aukist líkurnar á skæruhernaði.

Átök hafa verið á milli hersveita Kúrda og íraska stjórnarhersins á þessum slóðum undanfarna mánuði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert