Fjórðungur orðið fyrir netofbeldi

63% þeirra sem sögðst hafa orðið fyrir netofbeldi hafði átt …
63% þeirra sem sögðst hafa orðið fyrir netofbeldi hafði átt erfitt með svefn. Mynd/Amnesty International

Tæpur fjórðungur kvenna í átta löndum hefur orðið fyrir netofbeldi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Amnesty International. Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að rannsóknin leiði í ljós skelfileg áhrif netníðs og netáreitni á konur. „Í skýrslunni greina konur víða um heim frá streitu, kvíða og kvíðaköstum í kjölfar þessarar skaðlegu reynslu á netinu.“

Reynsla kvenna á aldrinum 18-55 ára í Danmörku, Ítalíu, Nýja-Sjálandi, Póllandi, Spáni, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum var rannsökuð. 23% aðspurðra hafði orðið fyrir netofbeldi að minnsta kosti einu sinni. Hlutfallið var lægst á Ítalíu, 16% en hæsti í Bandaríkjunum, 33%. „Það er sláandi að 41% kvennanna sem höfðu orðið fyrir netofbeldi sögðu þessi reynsla hefði að minnsta kosti einu sinni fengið þær til að óttast um líkamlegt öryggi sitt,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Asmina Dhrodia, rannsakanda Amnesty International í tæknimálum og mannréttindum að netið geti verið skelfilegur staður fyrir konur. Kvenhatur og níði þrífist á vettvangi samfélagsmiðla. „Þetta er ekki eitthvað sem hverfur um leið og þú skráir þig út. Ímyndaðu þér að fá líflátshótanir og nauðgunarhótanir þegar þú opnar símaforrit eða að búa við ótta um að kynferðislegum og persónulegum myndum af þér verði deilt á netinu án þíns samþykkis. Það sem er sérstakt við hættu níðs á netinu er hversu hratt það getur breiðst út. Eitt svívirðilegt tíst getur orðið að markvissum skothríðum tísta á nokkrum mínútum. Samfélagsmiðlafyrirtæki verða að fara að horfast í augu við þetta alvarlega vandamál,“ segir hún.

Nærri helmingur þeirra sem orðið hafði fyrir netofbeldi sagði ofbeldið hafa verið uppfullt af kvenhatri og karlrembu. Fimmtungur til fjórðungur kvenna sagðist hafa orðið fyrir netofbeldi sem innihélt meðal annars hótanir um líkamlega eða kynferðislega árás. Fjórðungur kvennanna sem hafði orðið fyrir netofbeldi sögðu að persónulegum og auðkennandi upplýsingum hefði verið dreift um þær á netinu. Nærri sex af hverjum tíu sögðu að ofbeldið hafi verið af hendi ókunnugra aðila.

Rannsóknin sýnir, samkvæmt Amnesty International, að afleiðingar netofbeldis geta verið hrikalegar. 61% svarenda í þátttökulöndunum sem sögðust hafa orðið fyrir netofbeldi hafa þjáðst af lægra sjálfsmati eða misst sjálfstraust sitt vegna þess. Rúmlega helmingur hafði upplifað streitu, kvíða eða kvíðaköst í kjölfar ofbeldisins og 63% átti erfitt með svefn í kjölfarið. Rúmlega helmingur sagði að ofbeldið hefði leitt til einbeitingarskorts.

Fjögur þúsund konur í áðurnefndum löndum tóku þátt en af þeim höfðu ríflega 900 orðið fyrir netofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert