1000 norskir listamenn fordæma áreitni

Norskar tónlistarkonur hafa nú bæst í hóp þeirra sem fordæma …
Norskar tónlistarkonur hafa nú bæst í hóp þeirra sem fordæma kynferðisofbeldi. Skjáskot/Aftenposten

Þúsund norskir listamenn fordæma nauðgun, kynferðismisnotkun og áreitni í yfirlýsingu sem birt er í Aftenposten í dag. "Skömmin og sektin verða að far þangað sem þær eiga heima, til þeirra sem áreita og verja gerendurnar,“ segir í yfirlýsingu sem tæplega 300 norskar söngkonur hafa undirritað.

Í annarri yfirlýsingu 706 norskra tónlistarkvenna er bent á að „það sé enginn ástæða til að ætla að tónlistarheimurinn,“ í Noregi sé betri en annars staðar, jafnvel þó að óvíða sé meira kynjajafnrétti.

AFP-fréttastofan bendir á að Noregur hafi verið í öðru sæti á lista yfir þau lönd í heiminum þar sem hvað mest kynjajafnrétti ríkti. Norðurlöndin hafi almennt stært sig af að vera framarlega í þeim efnum. Ísland sé í efsta sæti listans, svo komi Noregur, Finnland og svo Svíþjóð í fimmta sæti.

Á sömu síðu og yfirlýsingin er birt hefur Aftenposten birt nokkrar nafnlausar frásagnir listamanna sem greina frá kynferðisofbeldi, þrýsting og niðurlægingu.

„Ég fékk endalaus skilaboð frá samstarfsmönnum um útlit mitt, ekkert um vinnuna mína,“ sagði ein. „Í Osló var ég fórnarlamb áreitni frá manni sem ég átti í sambandi við,“ skrifaði ein tónlistarkona. „Líkt og aðrir þá hugsaði ég bara, þetta er algengt og það er ekki þess virði að reyna að gera eitthvað í því.“

500 norskar leikkonur sendu frá sér sambærilega yfirlýsingu í síðustu viku og þá hafa tæplega 2.000 sænskar tónlistarkonur fordæmt kynferðismisnotkun, en hinar ýmsu starfstéttir í löndum víða um heim hafa gert hið sama, frá því að kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var fyrir skemmstu sakaður um kynferðislega áreitni og misnotkun á af rúmlega hundrað konum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert