Emmerson sór embættiseið

Emmerson Mnangagwa (t.v.) sver embættiseið í Harare í dag.
Emmerson Mnangagwa (t.v.) sver embættiseið í Harare í dag. AFP

Emmerson Mnangagwa, nýr forseti Simbabve, sór embættiseið sinn að viðstöddu fjölmenni á íþróttaleikvangi í höfuðborginni Harare í dag. Þar með er 37 ára valdatíð Roberts Mugabe formlega á enda.

Mnangagwa var áður varaforseti landsins en Mugabe rak hann úr embætti eftir að hann fann að margir vildu hann á forsetastól. Varaforsetinn fyrrverandi flúði í kjölfarið land þar sem hann sagðist óttast um líf sitt. Herinn tók þá völdin í landinu og hneppti Mugabe í stofufangelsi. Forsetinn fyrrverandi, sem er orðinn 93 ára gamall, féllst loks á að stíga til hliðar nú í vikunni.

Mnangagwa tilheyrir líkt og Mugabe valdamikilli yfirstétt landsins. Hann er flokksbróðir Mugabes og hefur stjórnarandstaðan hvatt hann til að uppræta spillingu sem viðgengst í landinu.

Þó hann sé nýr í forsetaembætti hefur Mnangagwa tengst mörgum mestu grimmdarverkum sem framin hafa verið undir stjórn ZANU-PF flokksins. Hann var m.a. yfirmaður leyniþjónustunnar á níunda áratugnum er borgarastríð geisaði og þúsundir óbreyttra borgara féllu. Hann hefur hins vegar ávallt neitað að bera ábyrgð á morðunum en kennt hernum um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert