Talið að Flynn hafi samið við Mueller

Michael Flynn var aðeins þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump í nokkrar vikur.
Michael Flynn var aðeins þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump í nokkrar vikur. AFP

Lögmaður Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump, hefur sagt lögfræðiteymi forsetans að hér með sé öllum samskiptum við það um rannsókn Roberts Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra slitið. 

Fréttaskýrendur telja að þetta sé til marks um það að Flynn ætli sér að vera samvinnuþýður og vinna með Mueller að rannsókn málsins. Líklega hafi hann þá samið um örlög sín hvað málsókn varðar. 

Fyrst var greint frá samskiptabanninu í fjölmiðlum vestanhafs í síðustu viku. 

Algengt er að í stórum glæparannsóknum deili verjendur grunaðra eða tengdra aðila með sér upplýsingum. Slíkt getur hins vegar orðið ósiðlegt ef einhver aðila málsins er að semja eða hefur samið við sækjendur. 

Í frétt Guardian um málið segir að lögmenn Flynns og sonar hans, Michaels Flynn yngri, hafi neitað að tjá sig um stöðu mála. Flynn yngri er einnig til umfjöllunar í rannsókn Muellers.

Flynn neyddist til að segja af sér sem öryggisráðgjafi í febrúar eftir að upp komst að hann hefði blekkt embættismenn í Hvíta húsinu um eðli samskipta sinna við rússneska sendiherrann í Bandaríkjunum. 

Flynn studdi Trump dyggilega í kosningabaráttunni og hefur síðustu mánuði verið miðdepill rannsóknar Muellers á afskiptum Rússa af kosningunum vestanhafs. 

Í október voru fyrstu ákærur vegna málsins gefnar út. Meðal þeirra sem þegar hafa verið ákærðir er George Papadopoulos, sem var ráðgjafi Trumps í utanríkismálum í kosningabaráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert