30 börn í hópi þeirra 305 sem létust

Ekki er hægt að lýsa árásinni í Egyptalandi í gær með öðrum orðum en að fólki hafi verið slátrað. Að minnsta kosti 305 létust, þar af þrjátíu börn. Árásarmennirnir voru um þrjátíu talsins og veifuðu fánum Ríkis íslams er þeir hófu að stráfella fólk sem var við föstudagsbænir í Al-Rawda moskunni. Forseti Egyptalands hefur heitið því að svara af fullum þunga. Her landsins hefur þegar hafið loftárásir á skotmörk er talin eru tengjast árásarmönnunum.

Hundruð manna höfðu að vanda safnast saman í mosku í bænum Bir al-Abed á Sinai-skaga. Allt í einu var jeppum ekið að byggingunni og úr þeim hópuðust vopnaðir menn. Þeir sprengdu sprengju inni í moskunni og þegar fólkið hljóp út í örvæntingu til að reyna að bjarga lífi sínu var skotið á það.

Öryggissveitir á svæðinu hafa í nokkur ár barist við öfgafulla hópa sem framið hafa fjölmörg tilræði. Þeir tengjast flestir hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams en sumir þeirra Al-Qaeda.  Árásin á moskuna í gær er sú mannskæðasta sem framin hefur verið í landinu síðustu ár.

Hryðjuverkamennirnir létu sér ekki nægja að stráfella fólkið á hlaupum úr kirkjunni heldur kveikti einnig í bílum í nágrenninu og skutu svo á sjúkrabíla sem reyndu að komast að vettvangi voðaverkanna. Sumir árásarmannanna voru með grímur fyrir andlitum og klæddust hermannabúningum.

Særðir fluttir af vettvangi í gær.
Særðir fluttir af vettvangi í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert