Trudeau: Okkur þykir þetta leitt

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada í heimsókn á Filippseyjum nýverið.
Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada í heimsókn á Filippseyjum nýverið. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur beðið frumbyggja á Nýfundnalandi og á Labrador formlega afsökunar fyrir þá meðferð sem börn fengu á svæðinu í meira en eina öld. Um 150 þúsund börn frumbyggjanna voru tekin af foreldrum sínum og neydd til að fara í ríkisrekna skóla. Sambærileg afsökunarbeiðni var gefin út árið 2008 en þá voru börn fimm skóla í þessum tveimur héruðum ekki beðin afsökunar. 

Þeir sem aðgerðirnar bitnuðu á og eru enn á lífi fengu bætur frá ríkinu á síðasta ári. 

Trudeau las upp afsökunarbeiðni sína að viðstöddum fjölmiðlum í heimsókn sinni til Labrador í gær. „Fyrir börn allra innú, innúíta og nanatukavut á Nýfundnalandi og Labrador sem urðu fyrir mismunun, slæmri meðferð, misnotkun og vanrækslu í skólunum segi ég: Okkur þykir þetta leitt.“

Forsætisráðherrann segir að löngu hafi verið orðið tímabært að biðja afsökunar þó að slíkt bæti ekki þann skaða sem gerður var. „En við sem ríkisstjórn og þjóð tökum á okkur ábyrgð fyrir það sem brást.“

Skólarnir voru stofnaðir árið 1884 og var þeim síðustu ekki lokað fyrr en 1996. Börnin sem í þá gengu voru tekin af foreldrum sínum og þau send í heimavistarskóla sem ríkið eða kirkjan ráku.

Í rannsóknarskýrslu um málið sem gefin var út árið 2015 kom fram að þetta hafi verið gert til að reyna að veikja samfélög frumbyggja og jafnist á við „menningarmorð“.

Í skólunum var börnunum bannað að tala sín tungumál eða ástunda siði og hefðir sinna þjóða. „Þau voru látin skammast sín fyrir það hver þau væru,“ sagði Trudeau.

Meira en 3.000 börn létust á meðan þau voru í skólunum. Önnur voru beitt andlegu, líkamlega eða kynferðislegu ofbeldi.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert