Jónatan er að minnsta kosti 185 ára

Risaskjaldbakan Jónatan er mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn á bresku eyjunni St. Helena. Hann er líklega elsta landdýr heims og býr við munað á eyjunni.

Jónatan er að minnsta kosti 185 ára en aldur hans er ekki vitaður með vissu. Hann má eiga von á forvitnum gestum næstu mánuðina því nú hefur verið opnaður flugvöllur á hinni litlu eyju St. Helenu sem er að finna í miðju Suður-Atlantshafi.

Jónatan er vissulega þekktasti íbúi eyjunnar. Þar skríður hann rólegur um í blómlegum görðum við hús ríkisstjórans og gæðir sér á gulrótum, gúrku og eplum sem starfsmenn eldhúss ríkisstjórabústaðarins færa honum. 

Svo fræg er skjaldbakan að hún prýðir mynt landsins sem og frímerki. Á frímerkinu er Jónatan ungur að árum en sú mynd af honum var tekin snemma á síðustu öld. 

Dýralæknirinn Catherine Man sinnir Jónatan og segir hann sinn mikilvægasta skjólstæðing. „Hann þekkir raddir okkar og er mjög blíður en hann getur bitið þegar honum er gefið.“

Jónatan er mjög vanafastur og hefur ákveðna rútínu alla daga. Hann er fæddur á Seychelles-eyjum og enn er á huldu  hvers vegna hann var fluttur til St. Helenu. Það hefur þó líklega verið gert síðla á nítjándu öld, nokkrum áratugum eftir að Napoleon lést þar í útlegð árið 1821.

Þegar Jónatan var yngri var hann þekktur fyrir að trufla krikketleiki sem fram fóru í garði ríkisstjórasetursins. Þá átti hann það til að læðast undir borð í teboðum. 

 Man segir að hann sé nú orðinn blindur og finni enga lykt. Hann treysti því alfarið á heyrnina. Skjaldbökur sem þessar verða oftast ekki svona gamlar heldur í mesta lagi 150 ára. Hún segir mögulegt að Jónatan hafi lifað svo lengi þar sem líf hans sé einfalt og afslappað.

Íbúar St. Helenu eru aðeins um 4.000. Eyjan er langt undan ströndum Afríku og er einn afskekktasti staður á byggðu bóli.

Hingað til hefur aðeins verið hægt að sigla þangað en nú er búið að gera flugvöll og vikulegt flug verður frá Jóhannesarborg í Suður-Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert