„Skutu á alla sem drógu andann“

Yassin Taher, ríkisstjóri Ismailia, heimsækir fórnarlömb árásarinnar sem liggja á …
Yassin Taher, ríkisstjóri Ismailia, heimsækir fórnarlömb árásarinnar sem liggja á sjúkrahúsi. Tæplega 30 börn létust í árásinni. AFP

Ímam Al-Rawda-moskunnar í borginni Bir al Abed á Sinai-skaga í Egyptalandi var um það bil að hefja athöfn sína vegna föstudagsbæna er tugir manna köstuðu þangað sprengjum og hófu skothríð. Um 500 manns voru inni í moskunni er árásin hófst. Að minnsta kosti 305 létu lífið, þar á meðal um þrjátíu börn. Árásin er sú mannskæðasta í Egyptalandi í langan tíma.

„Um tveimur mínútum eftir að ég hafði komið mér fyrir þá heyrði ég hljóð sem hljómaði eins og sprenging fyrir utan moskuna,“ segir ímaminn Mohamed Abdelfatah sem liggur særður á sjúkrahúsi. „Svo komu menn inn og hófu að skjóta á fólk.“

Hann segir að skiljanlega hafi skelfing gripið um sig og allir reynt að flýja. „Árásarmennirnir skutu á hvern sem var. Skutu á alla sem drógu andann.“

Abdelfatah segir erfitt að gera sér grein fyrir hversu margir árásarmennirnir voru. Lögreglan í Egyptalandi telur að þeir hafi verið um þrjátíu.

Mikill troðningur myndaðist er fólkið reyndi að komast út úr moskunni, bæði í gegnum dyr og glugga. 

Enginn hefur enn lýst ábyrgð á árásinni á hendur sér en yfirvöld í Egyptalandi telja víst að þar hafi farið hópur sem tengist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og hefur gert fjölda árása á svæðinu undanfarin misseri. Sjónarvottar segja að einhverjir árásarmannanna hafi borið fána samtakanna.

Abdel Fattah al Sisi, forseti Egyptalands, lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg í kjölfar árásarinnar. Hann segir að allt verði gert til að ná þeim sem beri ábyrgð á ódæðinu. 

Herinn hóf strax aðgerðir og gerðu loftárásir á farartæki sem talin eru tengjast hryðjuverkahópnum. Allir þeir sem voru í bílunum létust. 

Frétt Sky um málið

Frétt BBC.

Rawda-moskan er skammt vestur af borginni El-Arish.
Rawda-moskan er skammt vestur af borginni El-Arish. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert