Glaumgosi festir ráð sitt

Lífið brosir við Meghan Markle og Harry Bretaprinsi.
Lífið brosir við Meghan Markle og Harry Bretaprinsi. AFP

Allt stefnir í að Harry Bretaprins og bandaríska leikkonan Meghan Markle gangi í það heilaga næsta vor. Ekki hefur verið greint frá nánari tímasetningu en breska konungsfjölskyldan gaf út yfirlýsingu í morgun þar sem kom fram að turtildúfurnar væru trúlofaðar.

Markle er þremur árum eldri en prinsinn, fædd árið 1981. Markle mun ganga upp að altarinu í annað sinn næsta vor en hún var gift kvikmyndaframleiðandanum Trevor Engelson. Þau skildu fyrir fjórum árum.

Leikkonan Meghan Markle er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt í …
Leikkonan Meghan Markle er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Suits. Ljósmynd / skjáskot Instagram

Markle hefur leikið í ýmsum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum en er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt sem Rachel Zane í sjón­varpsþátt­un­um Suits. 

Slökkti á tilfinningunum eftir dauða móður sinnar

Harry hefur verið á milli tannanna á fólki síðan hann fæddist, enda fæddur inn í konungsfjölskylduna í Bretlandi. Dauði móður hans, Díönu prinsessu, reyndist Harry ákaflega erfiður en hann var á 13. ári þegar hún lést í bílslysi.

Harry hefur tjáð sig um að hann hafi nánast „slökkt á öllum tilfinningum“ í tvo áratugi eftir að móðir hans lést. Hann hafi ákveðið að leita sér aðstoðar sálfræðings eftir að honum fannst hann vera á mörkunum að kýla einhvern.

„Ég hef líklega oft verið nálægt því að fá taugaáfall þegar sorg, lygi, misskilningur og allt kemur að þér á sama tíma,“ sagði Harry meðal annars í viðtali við Telegraph fyrr á þessu ári þegar hann ræddi móðurmissinn og tilfinningalegan doða.

Díana prinsessa, Harry, Vilhjálmur og Karl Bretaprins.
Díana prinsessa, Harry, Vilhjálmur og Karl Bretaprins. AFP

„Flagari“ sem flúði í herinn

Hann eyddi tíu árum í breska hernum þar sem hann fór meðal annars tvisvar til Afganistans. Nafn hans rataði hins vegar á forsíður blaða þegar hann skemmti sér of mikið eða þegar hann gagnrýndi fjölmiðla.

Harry hlaut menntun í Eton-heimavistarskólanum, líkt og Vilhjálmur bróðir hans en sá síðarnefndi erfir krúnuna einn daginn.

Harry kom fyrir í fjölmiðlum sem flagari í kringum tvítugt. Hann var þá oft myndaður í tengslum við gleðskap, illa til fara fyrir mann úr konungsfjölskyldunni og oft með huggulega dömu upp á arminn.

Fjölmargir supu hveljur árið 2005 þegar Harry klæddist einkennisbúningi þýskra nasista á grímuballi. Hann baðst afsökunar á athæfinu og „flúði“ siðar sama ár í herinn. Harry hefur greint frá því að það hafi verið mjög gott að flýja frá stöðugri athygli í herinn.

Harry í hernum.
Harry í hernum. BEN STANSALL

Harry hefur breytt orðspori sínu síðustu ár, frá því að vera glaumgosi yfir í mann sem sinnir góðgerðarstörfum og fleira í þeim dúr.

Hann virðist hafa erft hæfileikann að tengja við fólk frá móður sinni. Harry hefur sagt að Diana sé alltaf í huga hans. Minning hennar hafi hvatt hann í góðgerðarstarfinu, til að mynda þegar hann tók HIV-próf í beinni útsendingu á Facebook í fyrra.

Díana prinsessa.
Díana prinsessa. AFP

Vill að fjölmiðlar láti Markle vera

Harry og Markle kynntust í júlí í fyrra í gegnum sameiginlega vini. „Við erum ástfangin,“ sagði Markle í viðtali við Vanity Fair í september fyrir ári.

Harry hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að fjölmiðlar beri einhverja ábyrgð á dauða móður sinnar. Fljótlega eftir að hann og Markle byrjuðu að stinga saman nefjum sendi konungsfjölskyldan frá sér yfirlýsingu þar sem almenningur og fjölmiðlar voru beðnir um að Markle yrði látin í friði.

„Harry prins ótt­ast um ör­yggi Markle, og er inni­lega von­svik­inn yfir því að hon­um hafi ekki verið unnt að vernda hana. Það er ekki sann­gjarnt að ung­frú Markle þurfi að þola slíka áreitni, eft­ir nokk­urra mánaða sam­band við hann,“ kom meðal annars fram þar.

„Per­sónu­lega elska ég góða ástar­sögu,“ seg­ir Markle í áðurnefndu viðtali við Vanity Fair í fyrra en saga þeirra virðist einmitt vera ein slík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert