Staðfesta að sjór lak inn í kafbátinn

AFP

Svo virðist sem sjór hafi komist inn í argentínska kafbátinn San Juan, sem ekkert hefur spurst til síðan þann 15. nóvember síðastliðinn, en 44 áhafnarmeðlimir eru um borð. Talið er að sjór hafi komist inn í bátinn í gegnum lofttúðu á skrokk hans. Sjórinn hafi svo komist í einn af rafgeymum bátsins og orsakað skammhlaup. Þetta hefur BBC eftir talsmanni argentínska sjóhersins.

Enrique Balbi, talsmaður sjóhersins, sagði að áhöfnin hefði tilkynnt um atvikið, en tekist hefði að einangra rafgeyminn og koma í veg fyrir að eldur brytist út. Þá hefði annar rafgeymir í skut bátsins verið notaður til að halda förinni áfram. Áhöfin hugðist sigla bátnum strax til heimahafnar í Mar del Plata, suður af Buenos Aires. Þangað kom báturinn hins vegar aldrei. Síðast spurðist til áhafnarinnar þann 15. nóvember um klukkan hálfellefu að morgni.

Um­fangs­mik­il leit stend­ur enn yfir og að minnsta kosti þrett­án þjóðir aðstoða við hana, m.a. Banda­ríkja­menn, Bret­ar og Rúss­ar. Leit­ar­svæðið er um 480 þúsund fer­kíló­metr­ar að stærð. 

Ástvinir áhafnarinnar eru hins vegar flestir búnir að missa vonina um að einhver sé á lífi um borð, en átta dögum eftir að kafbáturinn hvarf komu fram upplýsingar um að sprenging hefði heyrst á svæðinu þar sem síðast náðist samband við hann. Argentínski sjóherinn hefur staðfest að hljóðið gæti hafa stafað af sprengingu í bátnum. Leitin heldur hins vegar áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert