Trump gagnrýnir May fyrir að gagnrýna sig

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að beina …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að beina athygli sinni við „hryðjuverkum“, ekki sér. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að beina athygli sinni við „hryðjuverkum“, ekki sér. Orðin lét Trump falla eftir að May gagnrýndi það að Trump skyldi deila Twitter-færslum bresks hægri öfgahóps að því er BBC greinir frá.

„Ekki beina athyglinni að mér, beindu henni að eyðileggingu  róttækra íslamskra hryðjuverkamanna sem á sér stað innan Bretlands,“ sagði Trump í færslu á Twitter.

Talsmaður May sagði í gær rangt af Trump að deila færslunni.  „Britain First reyn­ir að tvístra sam­fé­lög­um með því að nota hat­urs­fulla orðræðu með lyg­um og með því að ala á auk­inni spennu. Þau valda kvíða hjá lög­hlýðnu fólki,” sagði talsmaður­inn.

Bresk og bandarísk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina verið nánir bandamenn og oft haft að orði að „sérstakt samband“ sé milli þjóðanna. May var líka fyrsti erlendi þjóðarleiðtoginn sem Trump heimsótti eftir að hann settist á forsetastól.

Trump, sem hefur rúmlega 40 milljón fylgjendur á Twitter, deildi þremur myndböndum sem Jayda Fransen, varaformaður Britain First, hafði upphaflega birt á Twitter. Hún hefur áður verið ákærð í Bretlandi fyrir ógnandi og móðgandi orðalag og hegðun í ræðum sem hún flutti á fundi í Belfast.

Nokkrir breskir stjórnmálamenn hafa einnig gagnrýnt Trump fyrir að deila færslum Fransen og það hefur einnig erkibiskupinn af Canterbury gert, en hann sagði „verulega óhugnanlegt“ að Trump hafi kosið að „gefa rödd hægri öfgamanna aukin styrk“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert