Segja heræfingu hreina og klára ögrun

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, fylgist með eldflaugarskotinu í síðustu viku.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, fylgist með eldflaugarskotinu í síðustu viku. AFP

Norður-Kóreumenn hafa kallað Bandaríkin og Suður-Kóreu stríðsmangara vegna sameiginlegrar heræfingar þjóðanna sem hefst á morgun og stendur yfir í fimm daga. Þeir segja einnig að æfingin geti komið af stað kjarnorkustyrjöld.

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, varaði í gær við auknum möguleika á því að farið verði í stríð við Norður-Kóreu. Sagði hann að möguleiki á stríði við þjóðina væri að „aukast með hverjum deginum”.

Heræfingin kallast Vigilant Ace. Þar munu um 230 herþotur taka þátt, meðal annar vélar af tegundinni F-22 Raptor.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu skutu langdrægri eldflaug á loft í síðustu viku sem er það kraftmikil að hún nær til meginlands Bandaríkjanna.

Haldinn var neyðarfundur í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna þess þar sem Bandaríkin hvöttu þjóðir heimsins til að slíta öll tengsl við Norður-Kóreu.

H. R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi, ræðir við fjölmiðla.
H. R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi, ræðir við fjölmiðla. AFP

Rodong, sem er flokksblað helsta stjórnmálaflokks Norður-Kóreu, gagnrýndi heræfinguna harðlega. „Það er verið að ögra Norður-Kóreu fyrir allra augum og þetta gæti leitt til kjarnorkustyrjaldar á hverri stundu,” sagði í ritstjórnargrein blaðsins.

„Bandarískir og suðurkóreskir hermangarar ættu að hafa það í huga að heræfing þeirra sem beinist að Norður-Kóreu verður álíka heimskuleg og ef þeir ætluðu að hrinda af stað eigin gjöreyðingu.”

Greinin birtist einum degi eftir að utanríkisráðherra Norður-Kóreu sakaði stjórn Trumps Bandaríkjaforseta um að „grátbiðja um kjarnorkustyrjöld” með því að halda heræfingarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert