Ráðherrar áfram í haldi

Fyrrverandi varaforseti héraðsstjórnar Katalóníu, Oriol Junqueras, og þrír aðrir leiðtogar aðskilnaðarsinna verða ekki látnir lausir úr haldi fyrir kosningar en þeir eru til rannsóknar vegna aðildar að bar­áttu Katalón­íu fyr­ir aðskilnaði frá Spáni.

Sex aðrir fyrrverandi ráðherrar í héraðsstjórninni, sem einnig voru handteknir í síðasta mánuði, verða aftur á móti látnir lausir gegn greiðslu tryggingar upp á 100 þúsund evrur hver. Í tilkynningu frá hæstarétti Spánar kemur fram að þeir séu sakaðir um að hafa tekið þátt í uppreisn, hvatt til múgæsingar og að hafa misfarið með opinbert fé. Rannsóknin heldur áfram segir í tilkynningu frá hæstarétti.

Ákvörðun dómstólsins kemur á sama tíma og fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, Carles Puigdemont, á yfir höfði sér að vera framseldur frá Belgíu til Spánar. Þangað kom hann eftir að þing héraðsstjórnar Katalóníu lýsti yfir sjálfstæði 27. október. Hann hefur neitað að snúa heim aftur og segir að hann muni aldrei fá réttláta málsmeðferð á Spáni.

Spænsk yfirvöld hafa farið fram á að Puigdemont og fjórir aðrir fyrrverandi ráðherrar í héraðsstjórninni verði framseldir þar sem þeirra bíður ákæra vegna hlut þeirra í sjálfstæðisbaráttu Katalóníubúa.

AFP

Fréttir af því, að Junqueras Joaquim Forn, sem bar ábyrgð á innanhéraðsmálum í Katalóníu, og leiðtogar tvennra samtaka sjálfstæðissinna verði áfram í fangelsi, voru birtar í morgun en á miðnætti hefst kosningabaráttan fyrir kosningarnar í Katalóníu 21. desember formlega.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert