Segja að fyrrverandi forseti hafi verið drepinn

Mynd úr myndbandi sem sagt er sýna lík forsetans fyrrverandi, …
Mynd úr myndbandi sem sagt er sýna lík forsetans fyrrverandi, Ali Abdullah Saleh. AFP

Innanríkisráðuneyti Jemens, sem er á valdi uppreisnarmanna húta í landinu, segir að Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseti, hafi verið drepinn. Myndbandi hefur verið dreift af líki sem sagt er vera af Saleh.

„Innanríkisráðuneytið tilkynnir endalok deilu skæruliða og drápið á leiðtoga þeirra og glæpamönnum sem studdu hann,“ sagði þulur í sjónvarpsstöð sem er á valdi uppreisnarmannanna. Með „skæruliðum“ var vísað til vopnaðra stuðningsmanna Salehs. 

Fréttastofa AFP hefur myndbandið undir höndum og segir að á því megi að því er virðist sjá lík Salehs vafið inn í teppi. Áverkar sjáist á höfði hans. Á myndbandinu sjáist vopnaðir menn færa líkið inn í bíl. 

Flokkur Salehs hefur ekki staðfest að hann hafi verið drepinn. 

Saleh var forseti Jemens í 33 ár en var komið frá völdum árið 2012. Hann hefur hingað til verið í bandalagi við uppreisnarmenn húta í borgarastríðinu í Jemen gegn stjórnarher forsetans núverandi sem nýtur stuðnings Sádi-Araba og fleiri bandalagsríkja. Á laugardag tilkynnti Saleh hins vegar að bandalag hans við hútana fyrirfyndist ekki lengur. Átök brutust út og hafa tugir fallið, m.a. í höfuðborginni Sanaa, síðustu daga. 

Hútar voru áður svarnir óvinir Salehs en árið 2014 gekk hann til bandalags við þá til að reyna að koma ríkisstjórn landsins frá í eitt skipti fyrir öll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert