Vonir um samkomulag síðar í vikunni

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breskum stjórnvöldum tókst ekki að ná samkomulagi við Evrópusambandið í dag um það hvernig verði staðið að útgöngu Bretlands úr sambandinu. Báðir aðilar lýstu því þó yfir að þeir væru bjartsýnir á að samningar tækjust síðar í vikunni.

Fram kemur í frétt AFP að einkum strandi á að saman náist um fyrirkomulag mála á landamærum Írlands og Norður-Írlands en mikil áhersla er lögð á að þar verði áfram sem frjálsast flæði fólks yfir landamærin.

Herma heimildir að breskir ráðamenn hafi verið tilbúnir að samþykkja að Norður-Írland yrði áfram innan tollabandalags Evrópusambandsins og um það giltu áfram reglur innri markaðar sambandsins.

Hins vegar voru bandamenn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu, Lýðræðislegi sambandsflokkurinn frá Norður-Írlandi, ekki reiðubúnir að samþykkja það.

Hefur flokkurinn áhyggjur af því að það yrði til þess að reka fleyg á milli Norður-Írlands og afgangsins af Bretlandi. May þarf á norður-írsku sambandssinnunum að halda til þess að hafa meirihluta á breska þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert