„Píslarvottar“ ganga fram af fólki

AFP

Verk danskra myndlistarmanna hefur vakið mikla reiði meðal Frakka og Þjóðverja en þar er myndum af frönsku hryðjuverkamönnunum Ismael Omar Mostefai og Mohammed Atta stillt upp við hlið Martin Luther King og Sókrates í innsetningu sem er tileinkuð píslarvottum. Alls eru birtar myndir af tuttugu manns sem „létu lífið fyrir sannfæringu sína“.

Sendiherra Frakka í Berlín segir sýninguna skelfilega en listahópurinn The Other Eye of the Tiger stendur á bak við innsetninguna, Martyr Museum, í Kunstquartier Bethanien í Berlín.

Ismael Omar Mostefai.
Ismael Omar Mostefai.

Auk mynda af píslarvottum þá fylgir örstutt æviágrip um þá. Ismael Omar Mostefai er einn þriggja byssumanna og sjálfsvígsárárasarmannanna sem ruddust inn í Bataclan tónleikarstaðinn í París árið 2015 og drápu 90 manns. Við hliðina á myndinni af vígamanninum er aðgöngumiði að Bataclan staðnum.

Mohammed Atta.
Mohammed Atta.

Auk bandaríska mannréttindafrömuðarins King og gríska heimspekingsins Sókrates er  Mohammed Atta, flugmaður farþegaþotunnar sem flaug á annan Tvíburaturnanna 11. september 2001.

Í yfirlýsingu frá sendiráði Frakka kemur fram að á sama tíma og virða verði frelsi til listsköpunar þá fordæmi það ruglið á milli píslarvætti og hryðjuverka. 

Listahópurinn er ekki á sama máli og segist fordæma ofbeldi af öllu tagi og hryðjuverk. Hann segir að allir þeir sem birtast á myndunum séu álitnir píslarvottar af einhverjum. Hvort heldur sem það er af hálfu ríkis, trúar eða samtaka. Enginn af þeim sé tilnefndur sem píslarvottur af listahópnum.

Borgaryfirvöld í Berlín segja sýninguna ekki á þeirra ábyrgð og þau styðji hana ekki á nokkurn hátt, ekki með fjárframlögum né öðru.

Mikið uppnám var einnig í Kaupmannahöfn í fyrra þegar sami hópur stóð fyrir sýningu þar undir sömu yfirskrift.

Frétt Guardian um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert