Umskipti innan stríðandi fylkinga

Piltur fagna fæðingardegi spámannsins Múhameðs á götum Sanaa fyrir helgi. …
Piltur fagna fæðingardegi spámannsins Múhameðs á götum Sanaa fyrir helgi. Átök hafa verið hörð í borginni síðustu daga. AFP

Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseti Jemen, lék stórt hlutverk í þeim blóðugu átökum sem geisað hafa í Jemen frá árinu 2011. Þá var honum steypt af forsetastóli og gekk síðar til bandalags með uppreisnarmönnum Húta, þjóðarbroti í norðurhluta landsins. Hútar höfðu áður verið svarnir óvinir hans. Í gær var staðfest að uppreisnarmennirnir réðu Saleh af dögum eftir að hann klauf sig frá bandalaginu. Staðan sem nú er upp komin, þar sem mikil harka hefur enn og aftur færst í bardagana, er talin gjörbreyta hinu pólitíska landslagi hins stríðshrjáða lands og skerpa á þeim hlutverkum sem stórveldin Íran og Sádi-Arabía leika í borgarastríðinu.

Uppreisnarmennirnir dreifðu myndum af líki Ali Abdullah Saleh fyrrverandi forseta …
Uppreisnarmennirnir dreifðu myndum af líki Ali Abdullah Saleh fyrrverandi forseta í gær. Þeir skutu hann er hann lagði á flótta frá höfuðborginni Sanaa. AFP

En hver er hin pólitíska saga Saleh, hins 75 ára fyrrverandi forseta sem nú hefur verið felldur af sínum fyrrverandi bandamönnum í stríðinu?

Arabíska vorið blés Jemenum kjark í brjóst til að fjölmenna út á götum snemma árs 2011 og krefjast þess að Saleh, sem hafði stjórnað landinu með járnhnefa frá árinu 1978, færi frá völdum. 

 Á það féllst hann loks í nóvember þetta sama ár vegna þrýstings frá öðrum löndum á Arabíuskaga gegn því að njóta friðhelgi og að verða ekki sóttur til saka fyrir spillingarbrot sín í embætti. Þá höfðu mótmæli staðið yfir í ellefu mánuði og margir fallið í átökum þeim tengdum. 

Er hann lét af embætti var boðað til forsetakosninga sem fóru fram í febrúar 2012. Varaforseti landsins og eini forsetaframbjóðandinn, Abedrabbo Mansour Hadi, sór nokkrum dögum síðar embættiseið. Hann var á þeim tíma talinn geta sameinað þjóðina. 

Fyrsta verkefni nýs forseta var að gera nýja stjórnarskrá fyrir Jemen. En strax var ljóst að það yrði þrautin þyngri og spenna í landinu magnaðist dag frá degi.

 Uppreisnarmenn úr röðum minnihlutahópsins Húta höfðu lengi barist fyrir auknum völdum og haft svæði í norðurhluta landsins á sínu valdi. Hútarnir vildu sjálfstæði og vildu söðla undir sig stærra landssvæði því samhliða. Þeir eru shía-múslimar og nutu fljótlega stuðnings Írana í stríðsrekstri sínum.

Uppreisnarmaður úr röðum Húta stendur vörð í höfðuborginni Sanaa. Borgin …
Uppreisnarmaður úr röðum Húta stendur vörð í höfðuborginni Sanaa. Borgin hefur lengi verið á valdi uppreisnarmannanna og þar er barist nær daglega. AFP

Þann 21. september árið 2014 gerðu þeir áhlaup á höfuðborgina Sanaa og tóku eftir nokkra daga átök yfir stjórnarbyggingar, ríkisútvarpið og herstöðvar. Yfir 270 manns féllu þessa ofbeldisfullu daga. 

Með stuðningi Írana gerðu uppreisnarmennirnir samkomulag við vopnaða hópa stuðningsmanna Saleh. Hóparnir höfðu margir hverjir klofið sig frá stjórnarhernum eftir að nýr forseti tók við völdum. Hútar, sem áður höfðu verið skotmark Saleh á meðan hann sat á forsetastóli, höfðu nú bundist bandalagi í borgarastríðinu sem var við það að brjótast út.

Í janúar höfðu uppreisnarmennirnir náð völdum í forsetahöllinni. Hadi forseti flúði til borgarinnar Aden, næststærstu borgar Jemen, sem hann lýsti síðar tímabundna höfuðborg landsins. 

Rúmlega ári síðar gerðu níu ríki með sér bandalag undir forystu Sádi-Araba og hófu afskipti af borgarastríðinu. Loftárásir voru þegar í stað gerðar á bækistöðvar uppreisnarmanna og markmiðið var að verja forsetann Hadi sem naut alþjóðlegs stuðnings í embættinu. 

Vannært barn liggur á heilsugæslu í hafnarborginni Hodeidah í Jemen. …
Vannært barn liggur á heilsugæslu í hafnarborginni Hodeidah í Jemen. Hungursneyð geisar á ákveðnum svæðum landsins og faraldrar sjúkdóma hafa fylgt. AFP

 Hernaðarbandalaginu tókst að koma Hútum og þeirra stuðningsmönnum frá völdum á nokkrum svæðum en uppgangur þriðju fylkingar stríðsins, skæruliðar sem tengjast Al-Qaeda og Ríki íslams, flæktu málin enn frekar.

Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkin skipulögðu þrjár umferðir árangurslausra friðarviðræðna á árunum 2015 og 2016. Sjö sinnum náðist að semja um vopnahlé. En það var jafnharðan rofið. 

Í lok ágúst á þessu ári fór að verða vart um mikið ósætti í röðum uppreisnarmanna. Hútar fóru að kalla Saleh svikara eftir að hann talaði um vopnaða hópa þeirra sem skæruliða í ræðu. 

Daginn eftir streymdu þúsundir Jemena út á götur til að sýna Saleh stuðnings og fagna því að 35 ár voru liðin frá því að hann stofnaði stjórnmálaflokk sinn. Mikil spenna ríkti þennan dag og fyrr en varði höfðu brotist út átök. 

Átökin héldu áfram að harðna og í síðustu viku sauð upp úr og uppreisnarmenn Húta og stuðningsmenn Saleh hófu að berjast sín á milli í höfuðborginni Sanaa. Tugir létust og særðust. 

Fjölskylda á flótta frá höfuðborginni Sanaa. Íbúarnir hafa hins vegar …
Fjölskylda á flótta frá höfuðborginni Sanaa. Íbúarnir hafa hins vegar fáa kosti. Þeir komast ekki frá landinu og eru því á vergangi innan þess mánuðum saman.

2. desember rétti Saleh Sádi-Aröbum svo sáttahönd og breyta um stefnu ef það yrði til þess að hafnarbanni, sem farið var að valda hungursneyð og lyfjaskorti í landinu, yrði aflétt. Hútarnir tóku þessu vægast sagt illa og sögðu hann hafa sviðsett valdarán gegn bandalagi þeirra. 

Í gær fyrirskipaði Hadi forseti herjum sínum að ná höfuðborginni Sanaa aftur á sitt vald. Þá höfðu verið gerðar loftárásir í borginni klukkustundum saman, líklega af Sádi-Aröbum sem einir hafa burði til slíks af stríðandi fylkingum. 

Uppreisnarmennirnir, sem höfðu innanríkisráðuneytið á valdi sínu, tilkynntu þá að Saleh hefði verið felldur og myndir og myndskeið af líki hans voru birtar. Síðdegis í gær staðfestu svo samflokksmenn Saleh þessar fregnir. Uppreisnarmennirnir eru sagðir hafa skotið Saleh til bana er hann var að flýja Sanaa til svæðis utan höfuðborgarinnar sem alfarið er á valdi hans stuðningsmanna. 

Íbúar í borginni Aden á götum úti eftir loftárásir hernaðarbandalags …
Íbúar í borginni Aden á götum úti eftir loftárásir hernaðarbandalags Sádi-Araba í borginni. AFP

Nú á eftir að koma í ljós hvort að stuðningsmenn Saleh hafi stutt hann í þeirri ákvörðun að hætta samvinnu við uppreisnarmennina og aðstoða þess í stað stjórnarherinn við það að koma þeim frá Sanaa. Verði slíkt ofan á og Hútarnir hraktir aftur til norðurhluta landsins, er talið mögulegt að sjá muni fyrir endann á stöðugum átökum sem geisað hafa í Jemen árum saman. 

Það er þó ekki í augsýn í allra nánustu framtíð. Líklegt er að barist verði til síðasta blóðdropa og að almennir borgarar þurfi enn að búa við stöðugan ótta, ofbeldi, matarskort og heilsubrest af þessum sökum. Sameinuðu þjóðirnar hafa líkt ástandinu við hamfarir af mannavöldum þar sem börn hafa verið drepin og þau soltið í hel. 

Slíkt er enn að gerast í Jemen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert