Enn á ný veldur Trump ólgu

AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael og virða þar að vettugi viðvaranir um hvað það geti haft í för með sér. Hlutabréf hríðlækkuðu í verði í Tókýó í kjölfar fréttarinnar.

Þar með stígur Trump skref sem forsetar Bandaríkjanna hafa hingað til ákveðið að stíga ekki en ekkert ríki er með sendiráð í Jerúsalem líkt og Bandaríkin hafa nú ákveðið að gera.

AFP

Austurhluti borgarinnar tilheyrði Jórdaníu þegar Ísrael var stofnað árið 1948 en Ísraelar hernámu borgarhlutann í sex daga stríðinu 1967. Palestínumenn hafa krafist þess að Austur-Jerúsalem verði höfuðborg ríkis þeirra þegar fram líða stundir. Bandarísk stjórnvöld hafa lengi fylgt þeirri stefnu að leysa eigi deiluna um Jerúsalem í friðarviðræðum.

Trump Bandaríkjaforseti ræddi við Mahmud Abbas, forseta heimastjórnar Palestínumanna, í síma í gær og skýrði honum frá því að hann hygðist flytja bandaríska sendiráðið í Ísrael frá Tel Aviv til Jerúsalem. Áður höfðu leiðtogar margra ríkja varað Trump við því að slík ákvörðun gæti valdið mikilli ólgu í löndum múslíma.

Sendiráð Bandaríkjanna í Tel Aviv.
Sendiráð Bandaríkjanna í Tel Aviv. AFP

Abbas kvaðst hafa varað Trump við „hættulegum afleiðingum slíkrar ákvörðunar fyrir friðarumleitanir, öryggi og stöðugleika í Mið-Austurlöndum og öllum heiminum“. Áður hafði heimastjórn Palestínumanna sagt að ákvörðunin yrði til þess að tilraunir Bandaríkjastjórnar til að koma á friðarviðræðum milli Palestínumanna og Ísraela færu út um þúfur. Hamas-samtökin hafa hótað að hefja nýja uppreisn á Gaza-svæðinu verði sendiráðið flutt til Jerúsalem.

Trump hét því áður en hann varð forseti að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráðið þangað. Gert var ráð fyrir því að forsetinn tilkynnti ákvörðun sína í málinu í fyrradag en hann frestaði því vegna þrýstings frá leiðtogum annarra ríkja sem hvöttu hann til að flytja ekki sendiráðið, m.a. samstarfslanda Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum. Einn leiðtoganna, Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði að landið kynni að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og beita sér fyrir hörðum viðbrögðum samstaka múslímalanda, OIC.

AFP

Tilkynnt formlega klukkan 18

Háttsettur bandarískur embættismaður greindi frá því að Trump myndi tilkynna um þetta klukkan 18 í dag að íslenskum tíma í ávarpi sem hann flytur í Hvíta húsinu. „Hann mun segja að ríkisstjórn Bandaríkjanna viðurkenni Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael,“ hefur AFP fréttastofan eftir embættismanninum en allir helstu fjölmiðlar heims hafa greint frá þessu.

Skoðun hans er sú að með þessu sé hann að viðurkenna raunveruleikann, bæði sögulegan raunveruleika og nútímans, segir sama heimild. 

Öldum saman hafa gyðingar, múslímar og kristnir deilt um Jerúsalem en borgin er helg í augum allra trúarbragðanna. Með flutningi sendiráðs Bandaríkjanna þangað frá Tel Aviv er Trump að taka mjög einarða afstöðu með Ísrael á kostnað annarra. Ekki verður strax af flutningnum enda tekur tíma að finna heppilega staðsetningu með tilliti til öryggis, hönnun nýs húss og fjármögnun þess sem og byggingu. „Þetta er spurning um ár ekki mánuði. Þetta tekur tíma,“ segir heimildarmaðurinn.

Þegar fréttist af ákvörðun Trump í nótt lækkuðu hlutabréf hratt í verði í Tókýó þar sem fjárfestar reyndu að selja hlutabréf af miklum móð. Enda talið að þetta geti kynt undir ófriðarbáli í Miðausturlöndum. Nikkei hlutabréfavísitalan lækkaði í dag um 2%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert