Með um 40 fréttamenn í haldi

Þúsundir streymdu út á götur Sanaa í gær til að …
Þúsundir streymdu út á götur Sanaa í gær til að styðja yfirráð uppreisnarmanna Húta í borginni og fagna dauða fyrrverandi forseta landsins. AFP

Uppreisnarmenn í Jemen, sem hafa nú höfuðborgina Sanaa alfarið á sínu valdi, hafa hneppt yfir 40 fréttamenn í varðhald. Samtökin Fréttamenn án landamæra krefjast þess að fólkinu verði samstundis sleppt.

Meðal þeirra fjölmiðlamanna sem eru í haldi eru starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar Yemen Today, sem studdi forsetann fyrrverandi Ali Abdullah Saleh. Uppreisnarmennirnir, sem koma úr röðum þjóðarbrotsins Húta, myrtu Saleh er hann flúði Sanaa á mánudag. Áður höfðu þeir verið í bandalagi við hann gegn stjórnarhernum og hernaðarbandalagi Sádi-Araba í Jemen.

Uppreisnarmennirnir ruddust inn á skrifstofur sjónvarpsstöðvarinnar á laugardag og að sögn Fréttamanna án landamæra særðust þrír öryggisverðir. „Þessi gíslataka er dæmigerð fyrir hið  hatramma andrúmsloft sem er í Jemen gagnvart fréttamönnum sem hafa oft orðið skotmörk átakanna í landinu,“ segir Alexandra El Khazen hjá samtökunum Fréttamenn án landamæra. 

Saleh var forseti Jemen í yfir þrjá áratugi. Honum var komið frá völdum í kjölfar arabíska vorsins árið 2011. Nýjum forseta tókst ekki að lægja óánægjuöldur í landinu og Hútar, þjóðarbrot í norðurhluta landsins, gerði áhlaup á höfuðborgina árið 2014 og tók yfir stjórnarbyggingar. Saleh, sem hafði á forsetatíð sinni barist gegn uppgangi Hútanna, gekk til liðs við þá fyrir þremur árum. Upp úr því bandalagi slitnaði hins vegar í síðustu viku.

Uppreisnarmenn Húta og stuðningsmenn þeirra fjölmenntu út á götur höfuðborgarinnar …
Uppreisnarmenn Húta og stuðningsmenn þeirra fjölmenntu út á götur höfuðborgarinnar Sanaa í gær og fögnuðu dauða forsetans fyrrverandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert