Segja „hlið helvítis“ hafa opnast

Ákvörðun Trumps mótmælt fyrir utan Hvíta húsið í Washington.
Ákvörðun Trumps mótmælt fyrir utan Hvíta húsið í Washington. AFP

Hlið helvítis munu opnast gagnvart bandarískum hagsmunum fyrir botni Miðjarðarhafsins í kjölfar ákvörðunar Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Þetta sagði Ismail Radwan, fulltrúi hryðjuverkasamtakanna Hamas, í kjölfar þess að forsetinn lýsti yfir ákvörðun sinni í Hvíta húsinu í dag. 

Skoraði Radwan á arabísk og íslömsk ríki að skera á efnahagsleg og pólitísk tengsl við sendiráð Bandaríkjanna og reka bandaríska sendiherra úr landi til þess að bregðast við ákvörðuninni. Frelsissamtök Palestínu (PLO) segja ákvörðun Trumps gera að engu vonir um svonefnda tveggja ríkja lausn í deilu Ísraela og Palestínumanna.

Frétt mbl.is: Segir Jerúsalem höfuðborg Ísraels

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, sagði í sjónvarpsávarpi í dag að Bandaríkin gætu ekki lengur sinnt hlutverki sáttasemjara í deilu Ísraela og Palestínumannaí kjölfar ákvörðunar Trumps. Kallaði hann eftir því að Palestínumenn óháð fylkingum sneru bökum saman gagnvart þeirri miklu hættu sem þeim stafaði af ákvörðuninni.

Haft er eftir Saeb Erekat, háttsettum samningamanni Palestínumanna, að Trump hafi dæmt Bandaríkin úr leik varðandi friðarumleitanir á milli deiluaðilanna. Spyr hann hvernig hann geti sest niður með fulltrúum Bandaríkjanna þegar bandarísk stjórnvöld hafa þegar ákveðið hver framtíð Jerúsalems verði. Báðir aðilar gera tilkall til borgarinnar.

Ákvörðunin sögð óábyrg og ólögmæt

Þannig gera Ísraelar kröfu til allrar borgarinnar en Palestínumenn vilja að austurhluti hennar verði höfuðborg ríkis þeirra. Tveggja ríkja lausnin hefur verið grundvöllur tilrauna alþjóðasamfélagsins til þess að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafsins. Erekat segist óttast að Trump hafi með ákvörðun sinni stykt stöðu öfgamanna á svæðinu.

Ráðamenn víða um heim hafa gagnrýnt ákvörðun Trumps. Stjórnvöld í Tyrklandi hafa sagt hana óábyrga og ólögmæta og undir það hafa Jórdanir tekið. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, hefur lagt áherslu á að staða Jerúsalems verði aðeins ákvörðuð í viðræðum á milli Ísraela og Palestínumanna.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur harmað ákvörðun Trumps. Kallaði hann í dag eftir yfirvegun vegna málsins. Nauðsynlegt væri að forðast ofbeldi og leggja áherslu á samtal. Frakkar væru reiðubúnir að beita sér í þeim efnum. Ítrekaði hann ennfremur stuðning Frakklands og Evrópusambandsins við tveggja ríkja lausnina.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur hins vegar fagnað ákvörðun Trumps. Sagði hann ákvörðun forsetans sögulega, hugrakka og réttláta. Lagði forsætisráðherrann áherslu á að engin breyting yrði á stöðu Jerúsalems að öðru leyti. Borgin yrði þannig eftir sem áður heilög borg í augum gyðinga, múslima og kristinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert