Skora á Franken að segja af sér

Al Franken.
Al Franken. AFP

Tólf þingmenn Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hafa skorað á Al Franken, þingmann flokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings, að segja af sér vegna ásakana í hans garð um kynferðislega áreitni. Skrifstofa Franken hefur lýst því yfir að hann ætli að gefa út yfirlýsingu um pólitíska framtíð sína á morgun en ekki viljað tjá sig að öðru leyti.

Fjöldi kvenna hefur sakað Franken um óviðeigandi snertingar og annað áreiti. Þingmaðurinn hefur neitað því að hafa gert eitthvað rangt viljandi og beðist afsökunar. Öldungadeildarþingmaðurinn Kirsten Gillibrand sagði að komið væri einfaldlega nóg. Draga þyrfti línu í sandinn um hvað teldist viðeigandi hegðun og hvað ekki.

Fram kemur í frétt dagblaðsins Washington Post að segi Franken af sér verði hann annar bandaríski þingmaðurinn til þess að gera það vegna ásakana um kynferðislega áreitni en John Conyers sagði af sér sem þingmaður demókrata í fulltrúadeild þingsins í gær eftir þingmennsku í rúma hálfa öld vegna ásakana frá fjölda kvenna sem unnið höfðu með honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert