Lögregla beitti táragasi og gúmmíkúlum

Til átaka kom í Jerúsalem í morgun.
Til átaka kom í Jerúsalem í morgun. AFP

Palestínumönnum lenti saman við vopnaða ísraelska lögreglumenn í Jerúsalem í dag. Palestínumenn höfðu boðað mótmæli eftir föstudagsbænir í kjölfar ákvörðunar Don­ald Trump Bandaríkjaforseta að viður­kenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísra­el.

Til átaka kom í gamla bænum í Jersúsalem, sem og á öðrum stöðum. Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar varði ófriðurinn í stutta stund.

Palestínumenn hentu í sumum tilfellum steinum að ísraelskum lögreglumönnum sem svöruðu fyrir sig með því að beita táragasi og skjóta gúmmíkúlum að Palestínumönnunum.

Í gamla bænum héldu um 50 lögregluþjónar aftur af um 200 Palestínumönnum á meðan þeir spörkuðu í þá og slógu.

Mótmælendur standa á fánum Ísraels og Bandaríkjanna. Fyrir framan fánana …
Mótmælendur standa á fánum Ísraels og Bandaríkjanna. Fyrir framan fánana eru myndir af Donald Trump Bandaríkjaforseta og Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. AFP

Rauði hálfmáninn í Palestínu greindi frá því að einn hefði slasast í eldsvoða og tólf væru slasaðir eftir að hafa orðið fyrir gúmmíkúlu.

Taka ekki mark á orðum Trump

Stjórnvöld í Ísrael bættu við hundruðum lögreglumanna á vakt en herinn hefur einnig sent hundruð manna á Vesturbakkann.

„Þetta eru orðin tóm,“ sagði Omar, tvítugur piltur, um ákvörðun Trumps.

„Hvað sem gerðist þá vitum við að Jerúsalem er höfuðborg Palestínu, ekki Ísraels. Ísrael er leigjandinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert