108 ára Norðmaður drekkur daglega

George Melford Nygaard verður 108 ára eftir mánuð og er …
George Melford Nygaard verður 108 ára eftir mánuð og er elsti maður Noregs. Hann fær sér rauðvín á hverjum degi því það þynnir blóðið. „En ég nenni ekki að drekka mig fullan lengur.“ Ljósmynd/Sigmund Fossen/Glåmdalen nettavis

„Ég hef borðað og drukkið það sem ég vil allt mitt líf. Ég var stórreykingamaður fram á fimmtugsaldur og enn þá verð ég að drekka eitt glas af víni á degi hverjum, það þynnir blóðið, en ég nenni ekki að drekka mig fullan lengur.“

Þetta segir George Melford Nygaard, nýbakaður elsti maður Noregs, en hann tók við keflinu þegar Torbjørn Øverbø, 108 ára, sofnaði svefninum langa í síðustu viku. Nygaard er einnig 108 ára gamall, eða svo gott sem, hann verður það 12. janúar, og hafa norskir fjölmiðlar rætt við þennan gamansama og hressa öldung síðustu daga þar sem hann dvelur á Roverud-dvalarheimilinu í Kongsvinger, sem er í Hedmark, austur af Ósló.

Nygaard fæddist í Norður-Dakóta árið 1910, en faðir hans var í hópi þeirra Norðurlandabúa sem fluttu til vesturheims á ofanverðri 19. öldinni í leit að gæfu og betra lífi. Faðirinn fluttist frá vesturströnd Noregs árið 1894 og eignaðist Nygaard með konu sem hann kynntist í nýja landinu.

Nygaard segir í samtali við dagblaðið Glåmdalen í Kongsvinger að hann hafi upplifað tvær heimsstyrjaldir og reyndar tekið þátt í þeirri síðari. „Ég var í sjóhernum, U.S. Navy, og var á bækistöð í Hawaii í á þriðja ár,“ segir hann.

Heima þar til hann var 101 árs

Nygaard segist muna minna eftir fyrri heimsstyrjöldinni, þó rámi hann í að faðir hans hafi gefið amerískum hermönnum hest. Hann segist vonast til þess að ekki komi til þriðju heimsstyrjaldarinnar og líst illa á þróunina í sínu gamla heimalandi. „Donald Trump er ekki góður maður fyrir Ameríku,“ segir hann. „Kjósendurnir kokgleyptu slagorðið um að gera Ameríku mikla á ný en enn sem komið er er ekkert sem bendir til þess að það sé í uppsiglingu,“ heldur Nygaard áfram, en hann hefur verið sannfærður demókrati alla sína tíð. „Allir bændurnir þar sem ég bjó voru repúblikanar svo ég var svarti sauðurinn,“ segir hann.

Nygaard hefur það gott á Roverud-heimilinu og hefur komið sér þar vel fyrir með plötuspilara þar sem hann hlustar á vínylplötur, en sjötti áratugurinn í tónlist er í miklu uppáhaldi, eins og hann sagði norska ríkisútvarpinu NRK þegar það tók hann tali á 105 ára afmælisdaginn hans í hitteðfyrra. Eins fær Nygaard send til sín amerísk blöð og les Times Magazine, Business Week og Farmers Press svo hann er vel upplýstur um gang mála vestanhafs.

Heilsan var almennt góð hjá elsta manni Noregs framan af ævinni og hann bjó einn og óstuddur heima hjá sér þar til hann varð 101 árs. Þá fékk hann þráláta lungnabólgu og þótti upp frá því ekki rétt að hann byggi einn en eiginkona hans lést fyrir aldarfjórðungi.

Vill fá rauðvín í jólagjöf – en helst keypt Svíþjóðarmegin

Þegar dagblaðið VG tók Nygaard tali í gær undir fyrirsögninni „George (108) er með óvenjuleg ráð til þeirra sem vilja verða eins gamlir“ ljóstraði hann því upp að eitt af leyndarmálum langlífisins væri góða skapið. „Ég hef alltaf verið í góðu skapi. Maður verður bara að vera það til að lifa, ekki síst á mínum aldri. Einu sinni átti ég nágranna sem var alltaf reiður og fúll og þannig vil ég ekki hafa það. Þá er maður reiður út í lífið líka.“

Í viðtalinu við Glåmdalen-blaðið berst talið að jólunum og blaðamaður spyr Nygaard hvort hann hlakki til þeirra. „Aðfangadagur er bara venjulegur dagur hjá mér,“ segir hann, „en þá er mikið um góðan mat, það er jólatré og mörg ljós og það er dálítið öðruvísi.

Nygaard er ekki í nokkrum vafa um hvers hann óskar sér helst í jólagjöf, honum þætti gaman ef einhver keypti handa honum þriggja lítra rauðvínsbelju í kassa. „Helst í Svíþjóð, kassavínið er 100 krónum ódýrara þar en hér,“ segir elsti maður Noregs að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert