Ætlar ekki að hitta varaforsetann

Ísrelskir hermenn taka sér stöðu vegna mótmæla í austurhluta Jerúsalem …
Ísrelskir hermenn taka sér stöðu vegna mótmæla í austurhluta Jerúsalem í dag. AFP

Mahmud Abbas, forseti Palestínu, ætlar ekki að hitta Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í kjölfar ákvörðunar Donalds Trumps forseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Óánægjualda vegna ákvörðunarinnar hefur risið fyrir botni Miðjarðarhafs og víðar. Ísraelsher hélt í dag loftárásum sínum á Gaza áfram og féllu að minnsta kosti tveir Palestínumenn í þeim í morgun.

Fjórir Palestínumenn eru því látnir frá því að hörð mótmæli vegna ákvörðunar Bandaríkjaforseta hófust. Tugir hafa særst í átökum við ísraelska herinn. 

„Það verður enginn fundur með varaforseta Bandaríkjanna í Palestínu,“ sagði aðstoðarmaður Abbas í morgun. „Bandaríkin hafa farið yfir allar línur með þessari ákvörðun.“

Fjöldamótmæli héldu áfram á Vesturbakkanum í dag. Mótmælendur köstuðu steinum að ísraelskum hermönnum sem úðuðu táragasi og skutu gúmmíkúlum á mannfjöldann. 

Á Gaza fóru í dag fram útfarir tveggja sem féllu í átökum við ísraelska hermenn í gær. Þúsundir voru viðstaddir útfarirnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert