Hræðilegt dauðastríð ísbjarnar

Ungt karldýr dregur fæturna að ruslatunnu til að leita sér …
Ungt karldýr dregur fæturna að ruslatunnu til að leita sér að æti. Ljósmynd/Úr myndskeiði Pauls Nicklen

Hann gengur hægt. Kemst varla úr sporunum. Það er hvergi snjó eða ís að sjá. Þrátt fyrir að vera ungur að árum er þessi hvítabjörn svo veikburða og horaður að ekkert bíður hans annað en dauðinn.

Myndir og myndskeið af soltnum ísbirni, sem ljósmyndari National Geographic tók í Hellulandi (Baffin islands) í Kanada, hafa vakið gríðarlega athygli og hörð viðbrögð. Ljósmyndarinn Paul Nicklen var staddur á eyjunum í ágúst ásamt teymi annarra ljósmyndara og vísindamanna á vegum umhverfissamtakanna Sea Legacy er hann gekk fram á ísbjörninn. Hópurinn fór þegar að taka upp og áttaði sig á því að ekkert væri hægt að gera fyrir björninn. Hann var í dauðateygjunum. Ekki hefur verið staðfest hvað dró björninn til dauða en Nicklen segir þá kenningu líklega að ætisþurrð sé skýringin.

Nicklen þekkir birni vel. Hann er alinn upp á norðursvæðum Kanada, er líffræðingur að mennt en sneri sér síðar að náttúruljósmyndun og er einn sá fremsti í sinni röð í heiminum. 

Hann hefur séð yfir 3.000 birni á sínum ferli en björninn sem hann sá á Baffin-eyjum í ágúst er eitt það átakanlegasta sem hann hefur upplifað. „Við stóðum þarna og grétum,“ segir Nicklen. 

Dýrið var horað en leitaði sér þó enn að mat. Það gerði hann m.a. með því að velta um ruslatunnu. Hann dró fæturna í bókstaflegri merkingu. 

Nicklen hefur ítrekað verið spurður að því hvers vegna hann eða einhver úr hópnum hafi ekki komið dýrinu til bjargar með matargjöf eða einfaldlega með því að fella það. „Auðvitað hugsuðum við um það. En það er ekki eins og ég gangi um með byssu eða 200 kíló af selkjöti,“ svaraði hann m.a. á Instagram, spurður út í þetta. Hann hefur einnig bent á að ólöglegt sé að gefa ísbjörnum að éta. 

Birnirnir munu svelta í hel

Það sem hann hafi hins vegar gert var að mynda dauðastríðið svo að dauði bjarndýrsins yrði ekki til einskis heldur myndi vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga á líf hvítabjarna á norðurslóðum. „Þegar vísindamenn benda á að hvítabirnir gætu dáið út þá vil ég að fólk sjái hvernig það mun gerast. Birnirnir munu svelta í hel,“ segir Nicklen. „Svona lítur sveltandi björn út.“

Breytingar á búsvæðum ísbjarna hafa gert þá að táknmyndum loftslagsbreytinga. Þeir þurfa ísinn til að fara út á til að sækja sér fæðu í sjónum. Á sumum svæðum er ísinn búinn að hopa mikið og afkoma ísbjarna hefur samhliða versnað.

Í frétt National Geographic um málið segir að ástandið á heimkynnum hvítabjarnanna fari sífellt versnandi. Þó að björnunum fjölgi á ákveðnum tímabilum og á ákveðnum svæðum sé ljóst að loftslagsbreytingar hafa á heildina litið mikil áhrif á tegundina.

Á gervitunglamyndum, sem birtar voru í fyrra, sást að dögum þar sem nítján búsvæði ísbjarna eru hulin snjó hefur fækkað um 7-19 á hverjum áratug frá árinu 1979. Í skýrslu sem gefin var út árið 2015 kom fram að loftslagsbreytingar eru mesta ógn sem ísbjarnarstofninn, sem telur nú um 26 þúsund dýr, stendur frammi fyrir. 

This week I posted a video of a starving bear. It was difficult to film, and even harder to watch, as evidenced by the reactions it elicited. The truth is hard, but photojournalism is more than pretty pictures. It can be a difficult job. Journalism exposes—raw and without bias—the world’s issues in the interest of transparency, honesty and, I believe, change for the better. At @Sea_Legacy, we want to break down the walls of apathy and move people to change. We went to the Canadian Arctic to document the effects of climate change. We found the good, the bad and the ugly, but mostly just beautiful animals and landscapes we want to protect. We will continue to share it all with you in the interest of creating positive and lasting change. Thank you for helping us in #TurningTheTide. @Sea_Legacy with @CristinaMittermeier.

A post shared by Paul Nicklen (@paulnicklen) on Dec 8, 2017 at 11:15am PST

Paul Nicklen segir hafa verið erfitt að mynda björninn í Hellulandi en hins vegar hafi einnig verið erfitt að upplifa þau viðbrögð sem myndirnar fengu. „En sannleikurinn er oft sár, blaðaljósmyndun snýst ekki aðeins um fallegar myndir. Hún getur verið erfitt starf. Blaðamennska afhjúpar – hrá og hlutlaus – málefni heimsbyggðarinnar og ég trúi að hún geti leitt til hins betra.“

Hann segir samtökin Sea Legacy vilja hvetja til vakningar, að fólk hætti að sitja hljótt hjá. „Við fórum til heimskautasvæðisins í Kanada til að skrá áhrif loftslagsbreytinga. Við fáum það góða, það slæma og það ljóta, en fyrst og fremst falleg dýr og landslag sem við viljum vernda. Við munum halda áfram að deila þessu efni með ykkur til að hvetja til jákvæðra og viðvarandi breytinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert