Þúsundir mótmæltu fasisma á Ítalíu

Fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, var á meðal mótmælendanna.
Fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, var á meðal mótmælendanna. AFP

Mörg þúsund manns tóku þátt í mótmælagöngu í dag í bænum Como á Ítalíu gegn fasisma. Tilefni mótmælanna er málflutningur og aðgerðir ítalskra hægriöfgahópa gegn innflytjendum að undanförnu. Rúmlega 10 þúsund manns tóku þátt í mótmælunum að sögn skipuleggjenda sem er bandalag vinstriflokka á Ítalíu. 

Meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælunum var Metteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, samkvæmt frétt AFP. Liðsmenn í ítölskum öfgahreyfingum hafa að undanförnu gripið til aðgerða eins og að hleypa upp fundum góðgerðarsamtaka og ráðast inn á skrifstofur dagblaða sem þeir telja draga taum innflytjenda.

Liðsmenn slíkra samtaka réðust þannig til að mynda á dögunum inn á ritstjórnir dagblaðsins Repubblica og vikublaðsins L'Espressso með reyksprengjur að vopni og kölluðu eftir því að blöðin yrðu sniðgengin. Þá voru hakakrossar og önnur fasísk tákn rituð á húsnæði vinstrisamtakanna Udine í norðausturhluta Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert