Grafinn 76 árum eftir andlátið

Orrustuskipið USS Oklahoma.
Orrustuskipið USS Oklahoma. Wikipedia

Jarðarför fór fram í gær þar sem líkamsleifar bandarísks sjóliða voru bornar til grafar í heimabæ hans 76 árum eftir að hann lét lífið. Maðurinn, Samuel Crowder, féll í árás Japana á flotahöfn Bandaríkjamanna í Perluhöfn á Hawaii í desember 1941.

Borin voru nýlega kennsl á jarðneskar leifar Crowders með rannsókn á lífsýnum. Crowder starfaði sem slökkviliðsmaður á orrustuskipinu USS Oklahoma og lét lífið þegar skipið varð fyrir tundurskeyti og hvolfdi með þeim afleiðingum að 429 skipverjar fórust.

Erfiðlega gekk að bera kennsl á skipverjana á USS Oklahoma á sínum tíma og voru líkamsleifar Crowders og fjölda annarra skipverja grafnar til bráðabirgða á Hawaii. Hafin var vinna 2015 við að bera kennsl á líkamsleifar þeirra sem enn voru óþekktir.

Skyndileg árás Japana á Perluhöfn varð þess valdandi að Bandaríkin drógust inn í seinni heimsstyrjöldina. Styrjöldinni lauk í ágúst 1945 með uppgjöf Japana. Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert