Rússar sendi hersveitir sínar heim frá Sýrlandi

Vladimír Pútin Rússlandsforseti fyrirskipaði brottflutning Rússlandshers í óvæntri heimsókn sinni …
Vladimír Pútin Rússlandsforseti fyrirskipaði brottflutning Rússlandshers í óvæntri heimsókn sinni til Sýrlands í dag. AFP

Rússnesk stjórnvöld eru nú byrjuð að fækka í herliðið sínu í Sýrlandi að sögn Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands. Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði brottflutninginn í óvæntri heimsókn sinni til Sýrlands í dag.

Stuðningur Rússa hefur átt stóran þátt í því að bæta stöðu stjórnarhers Bashar al-Assad Sýrlandsforseta í stríðinu.

BBC segir Pútín hafa sent frá sér sambærilega tilkynningu um brottflutning í fyrra, en að Rússar hafi þá haldið hernaðaraðgerðum sínum í landinu áfram.

Spurður hve langan tíma það muni taka Rússa að senda her sinn á brott, sagði Shoigu það „velta á ástandinu“ í Sýrlandi.

Pútín fundaði með Assad í rússnesku Hmeimim herstöðinni í nágrenni Latakia.

„Ég skipa varnarmálaráðherranum og yfirmanni hersins að byrja brottflutning rússneskra hersveita,“ hefur rússneska RIA Novosti fréttastofan eftir Pútín.

„Ég hef tekið ákvörðun: Meirihluti rússnesku hersveitanna sem eru nú staðsettar í Sýrlandi snúa heim til Rússlands.“ Bætti hann við að ef „hryðjuverkamenn sýni sig aftur“, þá muni Rússar standa fyrir „árásum kröftugri en þeir hafi nokkurn tímann séð“.

Sagði hann Assad að Rússar vilji vinna með Írönum, sem einnig styðja stjórn Assads, og Tyrkjum, sem styðja uppreisnarmenn, að því að koma á friði í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert