Herinn taki þátt í baráttu við glæpagengi

Með rifflana á lofti aka suðurafrískir lögreglumenn á lofköstum í gegnum götur Manenberg. Þeir eru að bregðast við enn einu útkallinu í einu ofbeldisfyllsta svæði landsins. Manenberg er eitt af úthverfum Höfðaborgar og á götunni liggur lík manns sem féll í átökum milli glæpagengja.

Ringulreið ríkir á götunni. Ung börn stelast til að kíkja á líkið og lögregla hrópar á vegfarendur, sem hafa stoppað til að fylgjast með, að halda áfram för sinni.

Skotbardögum á svæðum á Cape Flats svæðinu þar sem mikið er um glæpagengi hefur fjölgað mikið. Yfirvöld hafa raunar óskað eftir íhlutun hersins þar sem lögregla ræður illa við ástandið.

Þungvopnuð lögrega bregst við skotbardaga glæpagengja í Manenberg.
Þungvopnuð lögrega bregst við skotbardaga glæpagengja í Manenberg. AFP

„Þegar skothríðin hefst, þá höldum við okkur innandyra“

„Það er ekkert sem við getum gert nema halda okkur fjarri götunum,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Keenan Willemse, einum íbúa Manenberg. „Þegar skothríðin hefst, þá höldum við okkur innan dyra. Við eru gott sem orðnir fangar á eigin heimilum. Ástandið á götunum er slæmt.

Samkvæmt tölum lögreglu verða tæp 20% allra morða í vesturhluta héraðsins vegna átaka glæpagengja. Raunveruleg tala er þó talin enn hærri.  Samkvæmt suðurafrískum fjölmiðlum hafa rúmlega 50 manns, flestir íbúar, fallið í skotbardögum í Cape Flats undanfarna fimm mánuði.

Cape Flats liggur milli Höfðaborgar og vínhéraðanna og er mikið um glæpagengi á svæðinu. Íbúar verða verða ósjaldan fyrir barðinu á ofbeldi sem brýst í átökum milli glæpagengjanna.

Þannig var eldri maður drepinn í október er hann var á leið að sækja ellilífeyrinn sinn og móðir varð fyrir slysaskoti í september er hún var að ræða við vinkonu utan við heimili sitt.

Sjaldnast er nokkur handtekinn og aðgerðir lögreglu koma oft of seint.

Fólk safnast saman úti á götu og fylgist með lögreglu …
Fólk safnast saman úti á götu og fylgist með lögreglu eftir átök gengja í Manenberg. AFP

Gengjahöfuðborg Suður-Afríku

Gróðinn af fíkniefnum, vörusmygli og verndarstarfsemi eru helstu tekjulindir gengjanna.

„Ég held að þeir hafi skákað lögreglunni, þeir eru betur skipulagðir,“ segir Faldiela de Vries, einn stofnandi Manenberg miðstöðvarinnar, aðgerðarhópi íbúa. „Það sem er hvað mest ógnvekjandi er aldur gerendanna og hve ungir þeir eru. Á níunda áratug síðustu aldar voru þeir á fertugs og fimmtugsaldri,“ segir hún. Nú sé hins vegar verið að taka inn börn niður í 12 ára aldur.

Talið er að rúmlega 100.000 manns séu í glæpagengjum í vesturhluta héraðsins og hefur það skapað ofbeldiskúltúr sem minnir helst á glæpasamtök í Bandaríkjunum eða Suður-Ameríku.

Manenberg hefur þann vafasama heiður að teljast „gengjahöfuðborg“ Suður-Afríku.

Héraðsstjórinn Helen Zille hefur óskað eftir aðstoð hersins vegna ástandsins.  „Með því að kalla inn herinn, þá fá hermennirnir sama vald og lögregla og eru þá ekki að bregðast við eins og hermenn í stríði,“ segir hún. „Það sem veldur mér hvað mestum áhyggjum við þennan gengjakúltúr og ofbeldi er að því er virðist endalaus straumur skotvopna og ólöglegra efna.“

Faldiela De Vries, einn stofnenda Manenberg miðstöðvarinnar, segir glæpagengin betur …
Faldiela De Vries, einn stofnenda Manenberg miðstöðvarinnar, segir glæpagengin betur skipulögð en lögreglu. AFP

Nota unga drengi til að sendast með fíkniefni og fela vopn

Búist er við að Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, ákveði fljótlega hvort að herinn verði sendur inn. Síðast voru hermenn sendir inn á svæðið í maí 2015 í kjölfar mikillar aukningar ofbeldisglæpa.

Í nokkrum hverfum í Cape Flats, m.a.  Bishop Lavis, Hannover Park, Mitchells Plain og Elsies River nota glæpagengin unga drengi til að sendast með fíkniefni og fela vopn.

Hard Livings glæpagengið eru ein elstu skipulögðu glæpasamtökin á svæðinu. Þau nota breska fánan sem kennimerki sitt og eiga keppinauta víða um Cape Flats, m.a. gengi sem kallar sig Americans.

Tugir annarra gengja hafa bæst í hópinn og má þar nefna Sexy Boys, Dixie Boys og Clever Kids sem eiga í átökum við númeragengin 26s og 28s sem eiga rætur sínar í fangelsum landsins.

„Margt ungt fólk lætur tæla sig inn í glæpagengi og fyrir vikið kemst fólk í vanda fyrir að vera að þvælast með skólafélögum án þess að vita að þeir eru félagar í glæpagengjum,“ segir hinn 17 ára Linden Brown.

Ung kona í meðferð í miðstöð fyrir fórnarlömb ofbeldis á …
Ung kona í meðferð í miðstöð fyrir fórnarlömb ofbeldis á svæðinu. AFP

Skotinn í vitna viðurvist og enginn handtekinn

Meintur glæpaforingi var skotinn fjórum skotum fyrir utan alþjóðaflugvöllinn í Höfðaborg í október fyrir framan fullt af vitnum. Enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins.

Árið 1996 var illræmdur leiðtogi Hard Livings, Rashaad Staggie, skotinn og kveikt í honum í íbúaóeirðum í  Salt River, en aðgerðin var af mörgum talinn ein harðasta aðgerð gegn glæpakúltúrnum.

Glæpasérfræðingurinn Don Pinnock, segir gengin eiga rætur sínar í því óréttlæti sem hafi viðgengist á tímum aðskilnaðarstefnunnar. „Á meðan það eru enn vandamál með fátækt, byssur og eiturlyf þá verður erfitt að útrýma gengjakúltúrnum,“ segir Pinnock.

„Ungt fólk sem skortir þjóðfélagsstöðugleika og sem á litla möguleika í lífinu dáist að gengjunum og það er eitt af því sem gerir svo erfitt að útrýma þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert