Handtekinn fyrir morð 25 árum síðar

Hollenska lögreglan.
Hollenska lögreglan. Wikipedia/Michiel1972

Hollenska lögreglan handtók 47 ára gamlan karlmann, á laugardaginn síðastliðinn, sem er grunaður um að hafa myrt og nauðgað konu fyrir 25 árum. Lífsýni sem fannst á líki konunnar samsvarar 100% við DNA-sýni karlmannsins.  

Milica van Doorn var 19 ára gömul þegar hún var myrt. Hún bjó í bænum Zaandam sem er nálægt Amsterdam. Lík hennar fannst 8. júní árið 1992 í tjörn í bænum. Hún hafði verið í afmæli um kvöldið og skömmu eftir miðnætti hélt hún heimleiðis með strætisvagni en skilaði sér aldrei.   

Samkvæmt lögum sem tóku gildi árið 2012 er lögreglunni heimilt að taka sýni úr fólki í þeirri von að upplýsa gömul lögreglumál. Sýni voru tekin úr 130 einstaklingum sem gáfu sjálfviljugir erfðaefni sitt til rannsóknar og höfðu búið í bænum Zaandam þegar morðið var framið.

130 sjálfboðaliðar gáfu DNA-sýni

Þessir einstaklingar áttu það sameiginlegt að eiga ættir að rekja til Tyrklands því DNA-sýni sem fannst á konunni sýndi að forfeður morðingjans voru þaðan. Einnig sást karlmaður af tyrkneskum uppruna hjóla á svipuðum tíma á þeim stað þar sem konan fannst látin. DNA úr einum af þessum 130 manna hópi sýndi að hluta til samsvörun við DNA-sýni sem fannst á vettvangi. Í kjölfarið var frændi þessa einstaklings rannsakaður og fannst 100% samsvörun við DNA-sýnið.  

„Þetta er í fyrsta skipti sem einstaklingur er handtekinn eftir að tengsl finnast í gegnum ættingja,“ segir Bob Steensma, saksóknari frá Norður-Hollandi, á blaðamannfundi. 

Karlmaðurinn er í haldi og ákveðið verður í næstu viku hvort hann verður látinn laus gegn tryggingu. 

Fjölskylda hinnar látnu var upplýst um handtökuna í gær. Hún segir þetta vera mikinn létti og þakkar lögreglunni sem og allri hjálp Tyrkja á svæðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert