Mikil reiði vegna nauðgunar og morðs

Stúlkan var með fjölda sára á líkamanum en henni hafði …
Stúlkan var með fjölda sára á líkamanum en henni hafði verið nauðgað og hún myrt. AFP

Nokkrir hafa verið yfirheyrðir í tengslum við hrottalega nauðgun og morð sex ára stúlku í bænum Haryana í norðurhluta Indlands.

Lík stúlkunnar fannst í gær nálægt heimili hennar en talið er að henni hafi verið rænt þaðan á föstudaginn. Indverjar eru skelfingu lostnir vegna málsins en mörgum þykir það minna á hópnauðgunarmál frá árinu 2012 þegar konu var nauðgað og hún lést síðar af sárum sínum.

Manoj Dhaka, móðir stúlkunnar, sagði í samtali við BBC að fjölskyldan vildi réttlæti. „Það er liðinn sólarhringur og lögreglan hefur ekki enn náð neinum,“ sagði hún.

Lögregla hefur yfirheyrt þrjá ættingja eiginmanns Dhaka en enginn hefur verið handtekinn en sérstakt teymi lögreglu rannsakar málið. Fjöldi fólks hefur komið saman í heimabæ stúlkunnar til að krefjast réttlætis.

Fjölskylda stúlkunnar krefst þess að alríkislögregla rannsaki málið en þau hafa ekki trú á lögreglu í héraðinu.

Faðir segist hafa verið við vinnu kvöldið sem henni var rænt. Hann segir að kona hans hafi áttað sig á því morguninn eftir að ein dóttir þeirra var horfin en þau eiga þrjú önnur börn.

Fjölskyldan býr á landsvæði ásamt fjórum öðrum fjölskyldum í Haryana en lögregla telur líklegt að sá seki búi í nágrenninu.

Fjölskylda stúlkunnar samþykkti að hún yrði jörðuð eftir að lögreglan lofaði því að einhver yrði handtekinn fljótlega. Ef enginn hefur verið handtekinn fyrir klukkan ellefu að morgni á miðvikudag hefur því verið heitið að mótmælin aukist til mikilla muna.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert