Stjórnarandstaðan útilokuð í Venesúela

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, segir að helstu stjórnarandstöðuflokkar landsins fái ekki að taka þátt í forsetakosningum sem fram fara á næsta ári. Aðeins þeir flokkar sem tóku þátt í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru í gær mega taka þátt.

Leiðtogar þriggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna sniðgengu kosningarnar í gær og sögðu kosningakerfi landsins hlutdrægt. Maduro er á annarri skoðun og segir kerfið afar traust, samkvæmt frétt BBC.

Hann sagði í ræðu í gær að stjórnarandstöðuflokkarnir séu horfnir af stjórnmálakorti landsins og þeir flokkar sem ekki hafi tekið þátt í kosningum helgarinnar hafi skrifað sig út úr stjórnmálum landsins.

Í október tilkynntu þrír helstu stjórnarandstöðuflokkarnir að þeir myndu sniðganga kosningar sem fram fóru í gær. Þar voru borgarstjórar og bæjarstjórar í yfir 300 borgum og bæjum kjörnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert