Úrkula vonar um betra líf

AFP

Úrvinda eftir að hafa setið föst í Serbíu mánuðum saman hefur hópur ungmenna á flótta reynt daglega að komast yfir landamærin til Króatíu án árangurs. Unga fólkið dvelur við ömurlegar aðstæður í landamærabænum Sid.

AFP

Á hverjum morgni hefja þau daginn á því að koma við í gamalli prentsmiðju, sem er löngu hætt starfsemi, en hún er við landamærin að Evrópusambandinu. Þar fá flóttamennirnir kaffi, epli, egg og vatn til þess að þrífa sig en sjálfboðaliðar frá ýmsum mannúðarsamtökum starfa í gömlu prentsmiðjunni undir vökulu augnaráði lögreglu. 

Eins geta flóttamennirnir hlaðið farsíma sína í prentsmiðjunni, fengið tjöld, skó og fatnað. Einhverjir flóttamenn hafa tjaldað í skóginum ekki langt í burtu til þess að losna við áreitni af hálfu lögreglu og bæjarbúa. Þeir þurfa að leggja á sig langa göngu á hverjum degi til þess að reyna að komast yfir landamærin. 

AFP

„Ég get ekki meir,“ segir 28 ára gamall Afgani við fréttamann AFP þegar hann lýsir vosbúð í skóginum. „Við teljum að á morgun verðum við öll dáin,“ segir hann. 

Hann hefur reynt að komast til Króatíu yfir sextíu sinnum og tókst einu sinni að komast til Slóveníu. En því miður alltaf sendur til baka. 

Að sögn Andrea Contenta hjá samtökunum Læknar án landamæra eru um fimm þúsund flóttamenn fastir í Serbíu. Flestir þeirra halda til í flóttamannabúðum. Um 500 eru hins vegar á vergangi í Sid og nágrenni en flestir eru í Belgrad og bænum Sombor.

AFP

Afar litlar líkur eru á að þeir komist lengra þar sem eftirlit með landamærum hefur verið aukið verulega. Margir eru orðnir auralitlir og veikir. „Við reynum á hverjum degi. Við erum úrvinda,“ segir Hamza, sem er 27 ára frá Alsír. Hann vonast til þess að komast til Belgíu. 

Hann var stöðvaður af króatísku lögreglunni og sendur til baka en hann ætlar að reyna aftur á morgun. Sumir reyna að laumast yfir landamærin í flutningabílum, undirvögnum flutningalesta eða á þaki lestanna. Enn aðrir reyna að komast fótgangandi yfir landamærin.

„Ég reyni og reyni aftur,“ segir Ali Amjad, sem er 24 ára gamall frá Kabúl. Hann er búinn að vera í Serbíu í tæp tvö ár ásamt félaga sínum sem sýnir augljós merki um að glíma við andleg veikindi.

Stundum kemur til átaka milli karla af ólíkum uppruna. Í síðustu viku var Norður-Afríkubúi stunginn í hjartað og fluttur á gjörgæslu í NoviSad. 21 árs Alsírbúi er með aðra höndina í fatla og plástraður en hann segist hafa lent í átökum við Afgana. Ekki hafi verið um slagsmál að ræða heldur hafi átökin snúist um peninga. 

AFP

Lögreglan hefur reynt að senda flóttafólkið í burtu í búðir annars staðar í landinu en það snýr yfirleitt alltaf aftur þar sem það hefur engan áhuga á að vera í Serbíu heldur vill það komast til ríkja ESB.

Margir íbúar Sid og nágrannabæjanna eru búnir að fá sig fullsadda á flóttafólkinu enda hefur smáglæpum fjölgað. Eins hafi búpeningur horfið af sveitabæjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert