Þakkaði fyrir lífið með stórri veislu

Hann ræddi við fréttamenn að lokinni veislu og var ánægður …
Hann ræddi við fréttamenn að lokinni veislu og var ánægður með daginn. Ljósmynd/JT

Japanskur kaupsýslumaður sem greindist með ólæknandi krabbamein nýverið hélt heljarinnar veislu í gær til að þakka fyrir lífið og kveðja þá sem hann þekkti. Hann bauð um 1.000 gestum í veisluna, þar á meðal vinum, gömlum skólafélögum, viðskiptafélögum og starfsfólki.

Saturo Anzaki, sem er átræður, er fyrrverandi stjórnarformaður vinnuvélafyrirtækisins Komatsu. Hann greindist með krabbamein í gallblöðru í október, að því er segir í frétt á vef BBC.

„Ég er sáttur að geta sagt „takk“ við fókið sem ég kynntist í gegnum lífið,“ sagði Anzaki við blaðamenn að veisluhöldum loknum. 

„Þar sem ég vil hámarka lífsgæði mín á meðan ég er hér enn, þá hef ég ákveðið að gangast ekki undir meðferð með tilheyrandi aukaverkunum,“ sagði hann á blaðamannfundi. 

Hann birti auglýsingu í dagblaði 20. nóvember þar sem hann sagði frá því að hann ætlaði að halda veislu til að fagna lífinu. Þetta vakti mikla athygli og fór sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum. Margir hrósuðu honum fyrir framtakið og meðan aðrir sögðu í spaugi að það væri gaman að fá boð í veisluna frægu. 

Anzaki leigði hótelsal í Tókýó, höfuðborg Japans, og var salurinn skreyttur minningum sem sýndu lífshlaup hans. Hann vildi ekki hafa veisluna á alvarlegum nótum og fékk m.a. danshóp frá heimahéraði sínu til að skemmta gestunum. 

Fram kemur í japönskum fjölmiðlum að Anzaki hafi reynt að heilsa eins mörgum gestum og hann gat til að koma þökkum á framfæri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert