Alabamabúar höfnuðu Moore

Doug Jones.
Doug Jones. AFP

Doug Jones er fyrsti demókratinn í aldarfjórðung til þess að vera kjörinn í öldungadeild Bandaríkjaþings í Alabama. Sigurinn er mikið áfall fyrir forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, sem studdi andstæðing hans, repúblikanann Roy Moore, með ráðum og dáð.

Úrslitin í Alabama minnka enn forystu repúblikana í öldungadeildinni en þeir eru með 51 þingmann og demókratar 49.

Roy Moore.
Roy Moore. AFP

Þegar búið var að telja 99% atkvæða neitaði Moore að játa sig sigraðan en Trump er þegar búin að senda Jones hamingjuóskir á Twitter. „Þegar svo mjótt er á munum þá er þetta ekki búið,“ sagði Moore við stuðningsmenn sína eftir að bandarískar sjónvarpsstöðvar höfðu lýst Jones sigurvegara kosninganna. Jones var mjög brugðið enda Alabama þekkt fyrir mikla íhaldssemi. Trump segir aftur á móti að repúblikanar muni fljótlega ná sætinu aftur. 

Moore hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni í garð ungra stúlkna og kvenna þegar hann var á fertugsaldri en hann neitar sök. Hann er fyrr­ver­andi for­seta hæsta­rétt­ar í Ala­bama. Hann ýjaði að því í nótt að óska eftir endurtalningu. „Atkvæðin eru enn að koma inn.“ sagði Moore. „Guð er alltaf við stjórn,“ en Moore er mjög trúaður og íhaldssamur. 

Kosningastjóri Moore, Bill Armistead, segir of snemmt að lýsa yfir sigri Jones þrátt fyrir að flestir séu búnir að gera það. Hann segir að Moore hafi verið málaður mjög dökkum litum og um leið óréttlátlega í kosningabaráttunni. 

Jones er fyrrverandi lögmaður og ríkissaksóknari í Alabama sem er meðal annars þekktur fyrir að sækja tvo Ku Klux Klan meðlimi til saka fyrir að sprengt upp kirkju svartra í Birmingham árið 1963. Fjórar stúlkur létust í árás öfgamannanna.

Þegar búið er að telja 99% atkvæða er Jones með 1,5% forskot á Moore en endurtalning er ekki heimil í Alabama nema munurinn sé hálft prósent eða minna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert